Hæstiréttur íslands

Nr. 2020-58

A (Sigurður Jónsson lögmaður)
gegn
B (Hulda Rós Rúriksdóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Dánarbússkipti
  • Erfðaskrá
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson.

Með beiðni 14. febrúar 2020 leitar A eftir leyfi Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 12. sama mánaðar í máli nr. 822/2019: A gegn B, á grundvelli 2. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. B leggst gegn beiðninni.

Gagnaðili höfðaði mál þetta og krafðist þess að erfðaskrá móður hennar, C, 6. janúar 2014 yrði lögð til grundvallar við opinber skipti á dánarbúi hennar, en til vara að viðurkennt yrði að hlutur hennar við skiptin næmi 83,334% og hlutur leyfisbeiðanda 16,666%. Í málinu lá fyrir að C og eiginmaður hennar, D, höfðu gert með sér sameiginlega erfðaskrá 10. október 2002 þar sem tekið var fram að leyfisbeiðandi skyldi ein erfa D, eins og hún væri skilgetin dóttir hans og þar með helming búsins, að þeim báðum látnum. Að öðru leyti skyldi fara eftir gildandi erfðalögum hverju sinni. Eftir andlát D árið 2011 fékk C leyfi til einkaskipta og var hún talin eini erfingi hans. C gerði nýja erfðaskrá 6. janúar 2014 þar sem kveðið var á um að fyrrnefnd gagnkvæm erfðaskrá væri felld úr gildi og tekið fram að um arf eftir hana færi að gildandi erfðalögum. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort henni hafi verið þetta heimilt.

Með úrskurði Landsréttar var staðfestur úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á varakröfu gagnaðila. Talið var að D hefði verið heimilt að arfleiða leyfisbeiðanda að þriðjungi eigna sinna með erfðaskránni 2002. Jafnframt var vísað til þess að arfleifandi hefði heimild til að afturkalla erfðaskrá sína, breyta henni eða bæta að vild, en þá þyrfti að gæta sömu reglna og við gerð erfðaskrár. Samkvæmt 2. mgr. 48. gr. erfðalaga nr. 8/1962 væri afturköllun sameiginlegrar eða gagnkvæmrar erfðaskrár því aðeins gild að hún væri gerð kunn hinum aðilanum, nema slíkt væri ekki unnt vegna sérstakra ástæðna. Það væri því ekki skilyrði fyrir afturköllun arfleifanda á sameiginlegri eða gagnkvæmri erfðaskrá að hinn aðilinn samþykkti afturköllunina. Þá var tekið fram að með umræddri sameiginlegri erfðaskrá hefði heimild langlífari maka til að ráðstafa eignum og breyta erfðaskránni ekki verið sérstaklega takmörkuð. C hefði því haft heimild til að afturkalla hina sameiginlegu erfðaskrá að því er varðaði hennar búshluta. Loks hefði C ekki afsalað sér erfðarétti og því hefði 28. gr. erfðalaga ekki þýðingu í málinu.

Leyfisbeiðandi byggir á því að kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni og hafi fordæmisgildi um túlkun á ákvæði 2. málsliðar 2. mgr. 48. gr. erfðalaga. Vísar hún til þess að eðli máls samkvæmt geti fyrrnefnt ákvæði einungis átt við á meðan báðir aðilar gagnkvæmrar erfðaskrár eru á lífi. Hefði það verið ætlun löggjafans að mæla fyrir um að sameiginlegri erfðaskrá mætti breyta eftir andlát hins skammlífara hefði ákvæði þess efnis verið sett í lögin. Úrskurður Landsréttar sé því bersýnilega rangur. Loks telur leyfisbeiðandi að ekki sé að finna dómafordæmi Hæstaréttar um kæruefnið.

Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni. Þá er hvorki unnt að líta svo á að það hafi fordæmisgildi umfram dómsúrlausnir sem áður hafa gengið né að það hafi grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins í skilningi 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Loks eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 2. mgr. sömu greinar. Er beiðninni því hafnað.