Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-73
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Laun
- Dómarar
- Opinberir starfsmenn
- Embættismenn
- Stjórnarskrá
- Stjórnsýsla
- Ógildingarkrafa
- Endurgreiðsla ofgreidds fjár
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari Kristinn Bjarnason lögmaður, Hrefna Friðriksdóttir prófessor og Róbert R. Spanó prófessor.
2. Með beiðni 8. júní 2023 leitar íslenska ríkið leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi héraðsdóms Reykjavíkur 15. maí 2023 í máli nr. E-3847/2022: Ástríður Grímsdóttir gegn íslenska ríkinu. Gagnaðili gerir ekki athugasemdir við það mat leyfisbeiðanda að uppfyllt séu lagaskilyrði til að áfrýja dómi héraðsdóms beint til Hæstaréttar.
3. Mál þetta lýtur að kröfum gagnaðila, sem er skipaður héraðsdómari, um ógildingu ákvarðana leyfisbeiðanda 29. júní 2022 sem fólu í sér að breyta útreikningsaðferð við breytingu launa hennar samkvæmt 4. mgr. 44. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla, að endurkrefja hana um hluta greiddra launa og að laun hennar fyrir júní 2022 voru lækkuð. Til vara krafðist gagnaðili viðurkenningar á því að ákvarðanirnar hefðu verið ólögmætar.
4. Héraðsdómur féllst á aðalkröfur gagnaðila um ógildingu ákvarðana leyfisbeiðanda. Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að ákvörðun leyfisbeiðanda um að breyta útreikningsaðferð við breytingu launa hennar teldist stjórnvaldsákvörðun, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Vísað var til þess að gagnaðili væri embættismaður samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og þæði laun samkvæmt einhliða valdboði en ekki tvíhliða samningi sem grundvallaðist á kjarasamningi. Breytingin hefði áhrif á launakjör gagnaðila og félli því ekki í flokk almennra stjórnunarheimilda stjórnvalda. Þá þyrfti að horfa til þess að dómarar skyldu vera sjálfstæðir í störfum sínum og óháðir öðrum þáttum ríkisvaldsins. Dómurinn vísaði til þess markmiðs löggjafans með setningu 4. mgr. 44. gr. laga nr. 50/2016 að girða að mestu fyrir aðkomu framkvæmdarvaldsins að ákvörðun launa dómara með þeim hætti að hlutlægt lögfest viðmið myndi ákvarða laun þeirra og að breytt útreikningsaðferð launa hefði raskað þeim fyrirsjáanleika og gagnsæi. Við töku ákvörðunarinnar hefði ekki verið fylgt málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga en gagnaðila hefði hvorki verið gert viðvart um að málið væri til meðferðar sbr. 14. gr. laganna né notið andmælaréttar sbr. 13. gr. laganna. Þeir annmarkar voru taldir verulegir. Var því fallist á fyrstu kröfu gagnaðila um ógildingu ákvörðunar um breytta útreikningsaðferð. Varðandi aðra aðalkröfu gagnaðila um ógildingu ákvörðunar leyfisbeiðanda um að endurkrefja hana um hluta greiddra launa taldi dómurinn ekki unnt að líta svo á að um endurkröfu leyfisbeiðanda hafi einungis gilt hefðbundin sjónarmið kröfuréttar í ljósi þess að hún hafi verið samofin ákvörðun um breyttan launaútreikning en við þá ákvörðun hefði ekki verið gætt málsmeðferðarreglna stjórnsýsluréttarins. Endurkrafan fæli í reynd í sér afturköllun upphaflegrar ákvörðunar um hvernig inntak 4. mgr. 44. gr. laga nr. 50/2016 og hliðstæðra reglna í bráðabirgðaákvæðum hefði verið markað og hefði auðkenni afturköllunar frá öndverðu, sbr. 2. tölul. 25. gr. laga nr. 37/1993. Teldist ákvörðunin jafnframt vera stjórnvaldsákvörðun. Ekki hefði verið fylgt málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga við töku hennar og voru þeir annmarkar taldir verulegir. Féllst héraðsdómur því á ógildingu ákvörðunar leyfisbeiðanda um að endurkrefja gagnaðila um hluta greiddra launa. Með sömu rökum og fallist var á fyrstu aðalkröfu gagnaðila féllst dómurinn á þriðju kröfu hennar um ógildingu ákvörðunar um að lækka laun hennar fyrir júní 2022.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að niðurstaða málsins hafi verulegt fordæmisgildi. Vísar hann til þess að ágreiningur málsins lúti að launauppfærslu fjölda aðila, meðal annars alþingismanna, ráðherra og tiltekinna embættismanna, til að mynda dómara, saksóknara, lögreglustjóra og seðlabankastjóra, ráðuneytisstjóra og ríkissáttasemjara sem allir hafi fengið sambærilegt bréf og leyfisbeiðandi. Niðurstaða málsins varði einnig þá sem taka eftirlaun í samræmi við laun þessa hóps. Þá telur leyfisbeiðandi að niðurstaða málsins hafi almenna þýðingu við túlkun og beitingu á tilteknum ákvæðum stjórnsýslulaga og almennum efnisreglum stjórnsýsluréttar. Loks telur leyfisbeiðandi að niðurstaða málsins hafi verulega samfélagslega þýðingu enda verði að gera ríkar kröfur þegar komi að réttindum og skyldum þess hóps sem ákvarðanirnar vörðuðu.
6. Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í því geti haft fordæmisgildi, almenna þýðingu fyrir beitingu réttarreglna og verulega samfélagslega þýðingu að öðru leyti. Þá eru ekki til staðar í málinu þær aðstæður á þessu stigi sem komið geta í veg fyrir að leyfi til áfrýjunar beint til Hæstaréttar verði veitt á grundvelli 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991, sbr. lög nr. 134/2022. Beiðni um leyfi til áfrýjunar héraðsdóms beint til Hæstaréttar er því samþykkt.