Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-134
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Viðurkenningarkrafa
- Skaðabótaábyrgð
- Vátrygging
- Ábyrgðartrygging
- Líkamstjón
- Vinnuslys
- Óhappatilvik
- Tilkynningarskylda
- Sönnunarbyrði
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.
2. Með beiðni 16. júlí 2025 leita Sjóvá-Almennar tryggingar hf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 19. júní sama ár í máli nr. 430/2024: A gegn Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um viðurkenningu á skaðabótaskyldu úr ábyrgðartryggingu sem vinnuveitandi hans var með hjá leyfisbeiðanda. Hann varð fyrir líkamstjóni við að misstíga sig við vinnu í flokkunarstöð þegar hann steig úr svonefndum liðléttingi ofan á pappa sem undir var rusl.
4. Með héraðsdómi var leyfisbeiðandi sýknaður af kröfu gagnaðila en með dómi Landsréttar var fallist á viðurkenningarkröfu hans. Í dómi Landsréttar kom fram að Vinnueftirlitinu hefði ekki verið tilkynnt um slysið fyrr en tæpu ári eftir að það varð og lýsing gagnaðila á tildrögum þess lögð til grundvallar. Samkvæmt því hefði vinnuveitandi gagnaðila ekki uppfyllt þær ríku kröfur sem gerðar væru í lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglum settum samkvæmt þeim. Landsréttur vísaði meðal annars til þess að óhjákvæmilegt hefði verið vegna þeirrar starfsemi sem færi fram í flokkunarstöðinni að rusl yrði í vegi fyrir starfsmönnum. Hefði vinnuveitanda borið að ganga úr skugga um að verklagi og búnaði væri þannig háttað að dregið yrði úr hættu sem af því skapaðist. Það hefði ekki verið gert heldur hefði leyfisbeiðandi verið látinn sinna starfi sem tveir starfsmenn hefðu átt að vinna svo öruggt væri. Það hefði leitt til þess að við ákveðnar aðstæður hefði hann orðið að fara með hraði úr liðléttingnum á stað þar sem mestar líkur hefðu verið á að aðskotahlutir væru á gólfi. Í því hefði falist saknæmt frávik frá þeirri háttsemi sem gera hefði mátt ríka kröfu um til vinnuveitanda gagnaðila og því ótvírætt að sú saknæma háttsemi hefði að minnsta kosti verið meðorsök slyssins.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrlausn málsins hafi verulegt almennt gildi þar sem málið sé fordæmisgefandi á sviði skaðabótaréttar, einkum um skaðabótaábyrgð vinnuveitanda. Jafnframt er á því byggt að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Enga þýðingu hafi í málinu að tilkynning til Vinnueftirlitsins hafi ekki átt sér stað fyrr en tæpu ári eftir að slysið varð enda hafi leyfisbeiðandi ávallt lagt til grundvallar frásögn gagnaðila af slysinu. Þá geti skýrsla Vinnueftirlitsins sem gerð var tæpum þremur árum eftir slysið sem þáttur í reglubundnu eftirliti ekki haft neitt sönnunargildi í málinu auk þess sem ekki hafi verið unnt að byggja á framburði gagnaðila um sönnun.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.