Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-54

A (Fjölnir Vilhjálmsson lögmaður)
gegn
TM tryggingum hf. og B ehf. (Þórir Júlíusson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Líkamstjón
  • Skaðabætur
  • Sönnun
  • Vinnuslys
  • Óhappatilvik
  • Vátrygging
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 11. apríl 2024 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 15. mars sama ár í máli nr. 365/2023: A gegn TM tryggingum hf. og B ehf. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.

3. Málið varðar kröfu leyfisbeiðanda um viðurkenningu á óskiptri skaðabótaskyldu gagnaðila vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir þegar hún rann til í hálku við að fara með rusl út af vinnustað sínum. Gagnaðili B ehf. var vinnuveitandi hennar og félagið vátryggt hjá gagnaðila TM tryggingum hf. þegar slysið varð. Ágreiningur aðila snýr að því hver beri ábyrgð á slysinu.

4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda. Í dóminum kom fram að ekki hefði áhrif á niðurstöðu sakarmats þótt ekki hefði tímanlega verið tilkynnt um slysið til Vinnueftirlits ríkisins. Ekki yrði séð að rannsókn eftirlitsins hefði verið til þess fallin að upplýsa frekar um málsatvik. Að virtum gögnum málsins og framburði leyfisbeiðanda og vitna fyrir dómi þótti leyfisbeiðanda ekki hafa tekist að sanna að slysið yrði rakið til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi fyrirsvarsmanna eða starfsmanna gagnaðila B ehf. Lagt var til grundvallar að um óhappatilvik hefði verið að ræða.

5. Leyfisbeiðandi byggir í fyrsta lagi á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um skyldur vinnuveitanda samkvæmt lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, og hversu ríkar skyldur verði lagðar á starfsmann að gæta eigin öryggis á vinnustað. Í öðru lagi byggir leyfisbeiðandi á því að málið varði mikilsverða hagsmuni sína. Í þriðja lagi byggir leyfisbeiðandi á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til enda sé hann í andstöðu við lög nr. 46/1980 og dómaframkvæmd Hæstaréttar. Auk þess telur leyfisbeiðandi að sakar- og sönnunarmat Landsréttar sé bersýnilega rangt.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.