Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-76
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Líkamstjón
- Skaðabætur
- Árslaun
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.
2. Með beiðni 13. júní 2023 leita Sjóvá-Almennar tryggingar hf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 26. maí sama ár í máli nr. 240/2022: Sjóvá-Almennar tryggingar hf. gegn A á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Málið lýtur að kröfu gagnaðila um greiðslu bóta úr hendi leyfisbeiðanda vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir í umferðarslysi í mars 2017, í bifreið sem tryggð var ábyrgðartryggingu hjá leyfisbeiðanda. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort lækka skuli árslaunaviðmið til útreiknings bóta um 10% vegna örorku sem gagnaðili hlaut í öðru umferðarslysi árið 2009.
4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms. Dómurinn taldi ekki forsendur til að lækka viðmiðunarlaun gagnaðila um 10% vegna þeirrar örorku sem hún hlaut í fyrra slysinu. Í dóminum kom meðal annars fram að fyrir lægi matsgerð dómkvaddra manna um varanlega örorku gagnaðila. Þar kæmi skýrt fram að við mat á varanlegri örorku hennar vegna slyssins hafi verið horft til þess að fyrir slysið hafi hún búið við 10% varanlega örorku vegna fyrra slyss. Matsmenn töldu skerðingu á starfsorku gagnaðila vegna seinna slyssins vera hæfilega metna 15% og væri það metin varanleg örorka. Landsréttur taldi samkvæmt framangreindu að við mat á varanlegri örorku gagnaðila vegna afleiðinga umferðarslyssins 2017 hefði verið tekið tillit til þeirrar skerðingar á starfsorku sem hún bjó við af völdum fyrra slyssins. Atvik málsins væru að þessu leyti með öðrum hætti en í dómi Hæstaréttar máli nr. 25/2018 sem leyfisbeiðandi vísaði til og taldi eiga við í málinu. Var því ekki fallist á að lækka bæri viðmiðunarlaun gagnaðila um 10% vegna varanlegrar örorku sem hún hlaut í fyrra slysinu.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi og nauðsynlegt sé að Hæstiréttur skýri nánar hvernig meta skuli árslaun samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 þegar um fyrri starfsorkuskerðingu tjónþola er að ræða. Leyfisbeiðandi telur að líta beri aðskilið á mat á varanlegri örorku og ákvörðun árslauna. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga eigi að miða við þau árslaun sem telja megi réttastan mælikvarða fyrir líklegar framtíðartekjur tjónþola. Byggir leyfisbeiðandi á því að þrátt fyrir að búið sé að taka tillit til fyrra slyss við ákvörðun örorku beri einnig að horfa til þegar tilkominnar starfsorkuskerðingar við ákvörðun árslaunaviðmiðs. Þá sé dómur Landsréttar bersýnilega rangur þar sem hann gangi þvert á niðurstöðu dóms Hæstaréttar í máli nr. 25/2018.
6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.