Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-103
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Umferðarlagabrot
- Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna
- Börn
- Barnaverndarlagabrot
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 26. maí 2025 leitar ákæruvaldið leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 30. apríl sama ár í máli nr. 327/2024: Ákæruvaldið gegn Hilmari Kristjánssyni. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Gagnaðili var ákærður fyrir að hafa ekið bifreið óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa fíkniefna og áfengis en meðan á akstrinum stóð hefðu þrjú börn verið farþegar í bifreiðinni. Taldist háttsemin varða við 1., sbr. 2. mgr. 49. gr. og 1., sbr. 2. mgr. 50. gr. umferðarlaga nr. 77/2019, allt sbr. 1. mgr. 95. gr. sömu laga, sem og 98. gr. og 1. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
4. Gagnaðili var með dómi héraðsdóms sakfelldur fyrir brot gegn umferðarlögum. Hins vegar var ekki fallist á með ákæruvaldinu að hann hefði með háttsemi sinni vanrækt börnin andlega og líkamlega þannig að lífi þeirra eða heilsu hefði verið hætta búin í skilningi 98. gr. barnaverndarlaga. Þá var ekki heldur talið að hann hefði með því sýnt börnunum vanvirðandi háttsemi í skilningi 1. mgr. 99. gr. sömu laga. Landsréttur hafnaði kröfu gagnaðila um að málinu yrði vísað frá dómi að því er varðaði ætluð barnaverndarlagabrot á þeim grundvelli að ákæra málsins væri ekki nægilega skýr. Með vísan til forsendna héraðsdóms var staðfest niðurstaða hans um sakfellingu fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna og áfengis. Landsréttur rakti að gögn málsins bæru með sér að gagnaðili hefði verið stöðvaður af lögreglu vegna þess að bifreið hans hefði vakið athygli. Aftur á móti yrðu af því ekki dregnar afdráttarlausar ályktanir um aksturslag eða stjórntök á bifreiðinni. Þá lægi ekkert fyrir um ökuhraða hennar. Landsréttur taldi því að ekki væri komin fram nægileg sönnun sem ekki yrði vefengd með skynsamlegum rökum að aðstæður hefðu verið slíkar að háttsemi gagnaðila hefði falið í sér vanrækslu þannig að lífi eða heilsu barnanna hefði verið hætta búin. Gagnaðili var því sýknaður af broti gegn 98. gr. barnaverndarlaga. Þá var háttsemin ekki talin eiga undir 1. mgr. 99. gr. laganna.
5. Leyfisbeiðandi telur brýnt að fá úrlausn Hæstaréttar um hvort gagnaðili hafi með þeirri háttsemi sem hann hefur játað jafnframt brotið gegn 98. og 1. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga. Mál þar sem menn hafi ekið undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna með börn sem farþega hafi verið til meðferðar hjá lögreglu og ákæruvaldi og þess megi vænta að fleiri slík mál muni koma upp. Dómaframkvæmd héraðsdómstóla hafi verið nokkuð misvísandi í slíkum málum.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Beiðninni er því hafnað.