Hæstiréttur íslands

Nr. 2019-169

M (Einar Gautur Steingrímsson lögmaður)
gegn
K (Valborg Þ. Snævarr lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Börn
  • Lögheimili
  • Meðlag
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Með beiðni 10. maí 2019 leitar M eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 12. apríl sama ár í málinu nr. 795/2018: M gegn K og gagnsök, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. K leggst gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að ágreiningi um hvar lögheimili tveggja barna aðilanna skuli vera og greiðslu meðlags með þeim, en undir rekstri málsins fyrir Landsrétti gerðu leyfisbeiðandi og gagnaðili dómsátt um að þau færu sameiginlega með forsjá barnanna til 18 ára aldurs þeirra. Héraðsdómur tók til greina kröfur gagnaðila um að lögheimili barnanna yrði hjá henni og að leyfisbeiðanda yrði gert að greiða einfalt meðlag með þeim. Staðfesti Landsréttur þá niðurstöðu með fyrrnefndum dómi.

Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til þar sem rökstuðningi fyrir niðurstöðu hans sé ábótavant. Vísar leyfisbeiðandi meðal annars til þess að Landsréttur hafi ekki tekið tillit til allra þátta sem honum hafi borið að gera við mat á forsjárhæfni aðila samkvæmt 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003. Þá hafi rétturinn ekki tekið nægilegt tillit til vilja barnanna. Loks telur leyfisbeiðandi að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi og varði mikilvæga hagsmuni sína.

Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að úrslit þess geti talist hafa fordæmisgildi svo einhverju nemi umfram dómsúrlausnir sem áður hafa gengið. Verður jafnframt að gæta að því að þótt málið varði mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda er svo einnig ástatt endranær í málum sem varða málefni barna, en ekki verður séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Er beiðni um áfrýjunarleyfi því hafnað.