Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-98
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Ráðningarsamningur
- Riftun
- Brottrekstur úr starfi
- Sönnun
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Karl Axelsson, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.
2. Með beiðni 20. júlí 2023 leitar B leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 23. júní sama ár í máli nr. 290/2022: A ehf. gegn B. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um laun í uppsagnarfresti úr hendi gagnaðila sem rifti ráðningarsamningi hans með vísan til verulegra vanefnda hans í starfi.
4. Héraðsdómur féllst á kröfu leyfisbeiðanda um laun í uppsagnarfresti en með dómi Landsréttar var gagnaðili sýknaður. Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að gagnaðila hefði tekist sönnun þess að leyfisbeiðandi hefði rangfært vinnuskýrslur og brotið alvarlega gegn samningsskyldum sínum við gagnaðila er lutu að umgengni við matvæli, þrifum í eldhúsi og framkomu við samstarfsmenn. Landsréttur taldi leyfisbeiðanda hafa brotið svo alvarlega gegn starfsskyldum sínum að gagnaðila hafi verið heimilt að víkja honum úr starfi án fyrirvara eða aðvörunar.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi og sakarefni þess hafi mikið fordæmisgildi á almennum vinnumarkaði, einkum um skilyrði riftunar ráðningarsamnings og hvenær áminning sé nauðsynlegur undanfari riftunar. Þá byggir hann á því að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína. Að endingu byggir leyfisbeiðandi á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur. Vísar hann meðal annars til þess að niðurstaða málsins sé reist á málsástæðu sem ekki var byggt á af hálfu gagnaðila og hefði því ekki átt að komast að í málinu, sbr. 2. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991. Enn fremur hafi sönnunarmat Landsréttar verið rangt og dómurinn ekki í samræmi við grundvallarreglur á sviði vinnuréttar.
6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.