Hæstiréttur íslands
Nr. 2021-313
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Barnavernd
- Miskabætur
- Friðhelgi fjölskyldu
- Friðhelgi heimilis
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.
2. Með beiðni 9. desember 2021 leitar A fyrir eigin hönd og ólögráða barna sinna B og C leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 12. nóvember sama ár í máli nr. 412/2020: Hafnarfjarðarkaupstaður gegn framangreindum leyfisbeiðendum á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að því hvort afskipti barnaverndar og barnaverndarnefndar gagnaðila við vinnslu máls á tveggja ára tímabili er laut að sviptingu forsjár A á sonum hennar, B og C, hafi falið í sér ólögmæta meingerð í skilningi b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
4. Í dómi héraðsdóms var talið að háttsemi starfsmanna gagnaðila hefði falið í sér ólögmæta meingerð og var fallist á bótaskyldu hans. Í dómi Landsréttar kom fram að ráðstafanir barnaverndar og barnaverndarnefndar í máli leyfisbeiðenda hafi verið gerðar að vel athuguðu máli og á grundvelli ítarlegrar gagnaöflunar. Fjölmörg úrræði hafi verið reynd til að styðja móðurina og styrkja forsjárhæfni hennar án þess að þær bæru árangur. Þá væri ekki annað ráðið en að starfsmenn gagnaðila hafi gætt að reglum barnaverndarlaga og stjórnsýslulaga. Ekkert hafi bent til annars en að ráðist hafi verið í þær aðgerðir og þeim viðhaldið með það að leiðarljósi sem börnunum var fyrir bestu og hagsmunir þeirra hafðir í fyrirrúmi í samræmi við meginreglur barnaréttar. Niðurstaða Landsréttar var því sú að ekki yrði talið að í háttsemi starfsmanna gagnaðila sem unnu að málinu hafi falist ólögmæt meingerð í skilningi b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Var gagnaðili því sýknaður af kröfum leyfisbeiðenda.
5. Leyfisbeiðendur byggja á því að úrlausn málsins hafi verulegt almennt gildi. Í því reyni á hvenær annmarkar á málsmeðferð við vistun barna utan heimilis og beiðni um forsjársviptingu leiði til bótaskyldu. Skýra þurfi hvaða kröfur megi gera til undanfarandi stuðningsaðgerða fyrir forsjársviptingu einkum þegar dómstólar hafa ógilt slíkar ákvarðanir barnaverndaryfirvalda. Einnig vísa leyfisbeiðendur til þess að ýmsir annmarkar hafi verið á mati Landsréttar á gögnum málsins og þeim lagareglum sem reyndi á. Þá byggja leyfisbeiðendur á því að úrslit málsins varði mikilvæga hagsmuni sína.
6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess geti haft verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðenda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að málsmeðferðinni hafi verið stórlega ábótavant eða að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.