Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-154

Íslenska ríkið (Fanney Rós Þorsteinsdóttir lögmaður)
gegn
Samkeppniseftirlitinu (Gizur Bergsteinsson lögmaður) og Innnesi ehf. (Páll Rúnar M. Kristjánsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Stjórnarskrá
  • Stjórnvaldsákvörðun
  • Ógilding
  • Samkeppnislagabrot
  • Meðalganga
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Björg Thorarensen og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 2. desember 2024 leitar íslenska ríkið leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja beint til réttarins í formi meðalgöngu dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 18. nóvember sama ár í máli nr. E-4202/2024: Innnes ehf. gegn Samkeppniseftirlitinu. Gagnaðili Samkeppniseftirlitið tekur ekki afstöðu til beiðninnar. Gagnaðili Innnes ehf. telur skilyrði meðalgöngu ekki fyrir hendi.

3. Ágreiningur málsins varðar kröfu gagnaðila Innness ehf. 8. júlí 2024 um að gagnaðili Samkeppniseftirlitið grípi inn í háttsemi framleiðendafélaga samkvæmt 5. gr. búvörulaga nr. 99/1993 en því hafnaði gagnaðili Samkeppniseftirlitið með ákvörðun 26. sama mánaðar. Kröfunni var synjað með vísan til þess að ekki væri á valdsviði Samkeppniseftirlitsins að grípa til íhlutunar gagnvart háttsemi framleiðendafélaga vegna undanþáguheimilda frá samkeppnislögum sem settar hefðu verið í 71. gr. A búvörulaga með lögum nr. 30/2024. Gagnaðili Innnes ehf. byggir á því að samþykkt laga nr. 30/2024 hafi verið í andstöðu við ákvæði 44. og 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.

4. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur var ákvörðun gagnaðila Samkeppniseftirlitsins felld úr gildi. Héraðsdómur taldi að breyting á búvörulögum sem samþykkt var á Alþingi 21. mars 2024 og gefin út sem lög nr. 30/2024 hafi ekki verið gerð á stjórnskipulegan hátt þar sem hún stríddi gegn stjórnarskránni og hefði af þeim sökum ekki lagagildi. Þar leit héraðsdómur til þeirra gagngeru breytinga sem gerðar hefðu verið á frumvarpi því sem varð að lögum nr. 30/2024 við meðferð þess á Alþingi. Þannig hefði frumvarp sem upphaflega var útbýtt aðeins fengið eina umræðu. Eftir það hefði öðru eðlisólíku frumvarpi, með breytingum gerðum í þingnefnd, verið útbýtt og það rætt við tvær umræður. Í raun hefði það frumvarp sem varð að lögum nr. 30/2024 því verið samþykkt eftir aðeins tvær umræður á Alþingi, í stað þess að það væri rætt við þrjár umræður eins og áskilið væri í 44. gr. stjórnarskrárinnar.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að uppfyllt séu skilyrði fyrir veitingu áfrýjunarleyfis beint til Hæstaréttar samkvæmt 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991. Í fyrsta lagi geti fordæmisgildi málsins verið töluvert þar sem ekki hafi reynt á sambærilegt álitaefni fyrir íslenskum dómstólum áður og það kunni að hafa fordæmisgefandi áhrif á beitingu 44. gr. stjórnarskrárinnar. Í öðru lagi hafi málið verulega almenna þýðingu fyrir beitingu réttarreglna. Einnig kunni það að veita leiðsögn um þá kröfu að lagafrumvörp séu rædd við þrjár umræður á Alþingi, hvenær breytingar séu svo miklar að um nýtt frumvarp sé í reynd að ræða og svigrúm löggjafans í því sambandi. Leyfisbeiðandi telur mikilvægt að túlkun héraðsdóms fái umfjöllun Hæstaréttar.

6. Um heimild til meðalgöngu vísar leyfisbeiðandi til þess að hann hafi lögvarða hagsmuni af niðurstöðu málsins. Því sé honum heimilt samkvæmt 20. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 190. gr. þeirra, að ganga inn í málið. Verði áfrýjunarleyfi veitt muni hann krefjast þess að sér verði heimiluð meðalgangan og dómur verði felldur í samræmi við kröfur gagnaðila Samkeppniseftirlitsins í héraði. Þessu til stuðnings vísar leyfisbeiðandi til dóma Hæstaréttar um tilvik þar sem aðilum hafi verið heimilað að ganga inn í mál þrátt fyrir að hafa ekki átt aðild að því í héraði. Í málinu reyni fyrst og fremst á stjórnskipulegt gildi laga nr. 30/2024. Að mati leyfisbeiðanda sé hann réttur aðili að málinu enda hafi hann hagsmuni af því að búvörulög standist stjórnarskrá en framkvæmd þeirra laga heyri undir matvælaráðuneytið samkvæmt 8. gr. forsetaúrskurðar nr. 5/2022 um skiptingu Stjórnarráðs Íslands í ráðuneyti. Í málinu reyni á túlkun á stjórnskipun landsins og kröfu um að lagafrumvörp séu rædd við þrjár umræður á Alþingi í samræmi við 44. gr. stjórnarskrár. Í efnisgrein 60 í héraðsdómi komi fram að áhorfsmál sé hvort betur hefði farið á því að beina málsókninni að leyfisbeiðanda. Hafi hann því lögvarða hagsmuni af efnisdómi í málinu.

7. Í 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 eru tæmandi taldar heimildir til að áfrýja dómi héraðsdóms beint til Hæstaréttar. Af ákvæðinu verður ekki leidd heimild þriðja manns sem ekki var aðili að máli í héraði til að óska eftir leyfi Hæstaréttar til áfrýjunar héraðsdóms og þá verður heimild til að veita slíkt leyfi ekki fundin stoð í öðrum ákvæðum laganna. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.

8. Til þess er þó að líta að með ákvörðun Hæstaréttar í máli nr. 2024-151 var gagnaðila Samkeppniseftirlitinu veitt heimild til að áfrýja umræddum héraðsdómi beint til Hæstaréttar. Ekki er loku fyrir það skotið að heimild kunni að standa til aukameðalgöngu leyfisbeiðanda í því máli fyrir réttinum á grundvelli meðalgöngustefnu til réttarins. Ákvörðun um hvort slík meðalganga verði heimiluð verður tekin af dómurum málsins undir rekstri þess.