Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-104
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Farmflutningur
- Skaðabótakrafa
- Orsakatengsl
- Sérfræðiábyrgð
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
2. Með beiðni 12. júlí 2022 leitar Beko-Dimon Fishing Co. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 16. júní 2022 í máli nr. 333/2021: Beko-Dimon Fishing Co. gegn TVG-Zimsen ehf. á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Ágreiningur aðila lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um skaðabætur úr hendi gagnaðila í tengslum við afhendingu á vörum fyrir leyfisbeiðanda án þess að viðtakandi hefði framvísað einu þriggja frumrita farmskírteinis. Lýtur ágreiningurinn einkum að því hvort orsakatengsl séu á milli þeirrar háttsemi gagnaðila að afhenda viðtakanda vörurnar, án þess að fá farmskírteini í hendur, og þess tjóns sem leyfisbeiðandi telur sig hafa orðið fyrir.
4. Með dómi Landsréttar var staðfestur héraðsdómur um sýknu gagnaðila af kröfu leyfisbeiðanda. Gagnaðili var umboðsmaður skipafélagsins sem annaðist flutninga á vörum leyfisbeiðanda og tók við þeim og afhenti viðtakanda þær 30. september 2016. Aðilar deildu ekki um að gagnaðila var afhendingin óheimil þar sem viðtakandi framvísaði ekki einu þriggja frumrita farmskírteinis. Viðtakandinn greiddi ekki fyrir vöruna og krafði leyfisbeiðandi gagnaðila um skaðabætur vegna þess tjóns. Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að meta yrði það gagnaðila til sakar að hafa afhent viðtakanda vörurnar við þessar aðstæður og væri skilyrðum skaðabótaábyrgðar utan samninga að því leyti fullnægt. Hins vegar tók Landsréttur fram að vörurnar hefðu verið seldar með þeim skilmála að þær yrðu afhentar viðtakanda gegn því að hann undirritaði heimild til skuldfærslu af reikningi sínum. Sú undirritun hefði farið fram 24. nóvember 2016 og gagnaðila því verið skylt að afhenda viðtakanda vörurnar þann dag. Gjalddagi kröfu leyfisbeiðanda á hendur viðtakanda um greiðslu hefði hins vegar ekki verið fyrr en í febrúar 2017. Því taldi Landsréttur ekki vera orsakatengsl milli fyrrgreindra mistaka gagnaðila og tjóns leyfisbeiðanda.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Í málinu reyni á athafnir gagnaðila, sem auglýsi starfsemi sína sem sérfræðiþjónustu á sviði tollafgreiðslu, saknæmismælikvarða sem styðjast beri við, orsakasamhengi og sönnun tjóns. Málið hafi jafnframt fordæmisgildi um skýringu og túlkun reglna um sérfræðiábyrgð, einkum þegar slíkir sérfræðingar gegna mikilvægu hlutverki í alþjóðlegum vörukaupum og á þeim hvíla sérstakar skyldur að lögum. Þá varði úrslit málsins sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda enda lúti það að verulegum fjárhagslegum hagsmunum hans. Loks telur leyfisbeiðandi að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Því til stuðnings vísar hann einkum til þess að dómurinn fari gegn almennum sjónarmiðum sem mótast hafi um skaðabótaábyrgð á grundvelli sérfræðiábyrgðar.
6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.