Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-117

Eignarhaldsfélag Skólabrú 1 ehf. (Jón Ármann Guðjónsson lögmaður)
gegn
Kviku banka hf. (Stefán A. Svensson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Aðildarskortur
  • Krafa
  • Lán
  • Trygging
  • Dráttarvextir
  • Sönnun
  • Sönnunarbyrði
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Karl Axelsson, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 7. nóvember 2023 leitar Eignarhaldsfélag Skólabrú 1 ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 12. október sama ár í máli nr. 400/2022: Eignarhaldsfélag Skólabrú 1 ehf. gegn Kviku banka hf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Með yfirlýsingu 21. júlí 2008 lýsti þáverandi meðeigandi og stjórnarformaður leyfisbeiðanda því yfir að tilgreindir fjármunir sem hann hefði afhent Virðingu hf. árið 2007 væru til tryggingar viðskiptum félagsins Velsældar við Virðingu hf. og að þeir væru eign leyfisbeiðanda, sem hefði lánað Velsæld ehf. fjármunina sem veð fyrir viðskiptum þess félags við Virðingu hf. þar til annað yrði ákveðið. Við samruna 18. nóvember 2017 tók gagnaðili yfir réttindi og skyldur Virðingar hf. Undir lok árs 2018 leitaði skiptastjóri þrotabús eiganda helmingshlutar í leyfisbeiðanda svara um hvað hefði orðið um fjármunina. Í framhaldinu leitaði leyfisbeiðandi til gagnaðila og bað um þær upplýsingar en ítarleg leit gagnaðila að þeim bar ekki árangur. Ágreiningur málsins snýst meðal annars um upplýsingar um afdrif fjármunanna og kröfu leyfisbeiðanda um afhendingu þeirra úr hendi gagnaðila.

4. Með dómi héraðsdóms var gagnaðili sýknaður af kröfum leyfisbeiðanda á grundvelli aðildarskorts. Landsréttur vísaði frá héraðsdómi kröfum leyfisbeiðanda um dráttarvexti en staðfesti að öðru leyti dóm héraðsdóms með vísan til forsendna. Var leyfisbeiðandi látinn bera hallann af sönnunarskorti og fallist á með gagnaðila að honum bæri ekki skylda til að geyma upplýsingar um uppgerð viðskipti lengur en í sjö ár frá lokum viðkomandi reikningsárs, sbr. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald. Þá var talið að allt benti til þess að leyfisbeiðandi eða eftir atvikum þáverandi fyrirsvarsmaður hans hefði lánað félaginu Velsæld fyrrgreinda fjármuni og að lántaki hefði sem veðsali veðsett þá veðhafanum Virðingu hf. til tryggingar í viðskiptum þeirra. Á grundvelli framangreinds taldi dómurinn að við afhendingu lánsfjár hefði leyfisbeiðandi, sem lánveitandi, ekki lengur verið eigandi fjármunanna heldur hefði hann við lögskiptin eignast samsvarandi kröfu á hendur lántaka, Velsæld ehf. Talið var að leyfisbeiðandi hefði hvorki sýnt fram á að hann væri eigandi fjármuna sem gagnaðila bæri að afhenda honum né að stofnast hefði til kröfuréttarsambands milli aðila málsins.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi meðal annars fyrir réttarstöðu einstaklinga og fyrirtækja í viðskiptum við fjármálafyrirtæki þar sem nauðsynlegt sé að skera úr um með afgerandi hætti hvort fjármálafyrirtækjum sé heimilt að farga öllum bókhaldsgögnum að sjö árum liðnum frá lokum reikningsárs. Þá byggir leyfisbeiðandi á að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína. Kröfur hans nemi verulegri fjárhæð auk þess sem hann skorti gögn til að skattyfirvöld heimili honum afskriftir fjármunanna. Þá sé dómur Landsréttar bersýnilega rangur að efni til. Loks hafi rökstuðningur Landsréttar verið í andstöðu við fyrirmæli f-liðar 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991.

6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.