Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-129

Samskip hf. (Hörður Felix Harðarson lögmaður)
gegn
Samkeppniseftirlitinu (Gizur Bergsteinsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Aðild
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Stjórnvaldsákvörðun
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Skúli Magnússon.

2. Með beiðni 24. október 2024 leita Samskip hf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 26. september sama ár í máli nr. 237/2023: Samkeppniseftirlitið gegn Samskipum hf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort leyfisbeiðandi geti með kæru til áfrýjunarnefndar samkeppnismála krafist ógildingar á hluta sáttar sem Eimskipafélags Íslands hf. og tengd félög, hér eftir nefnt einu nafni Eimskip, gerðu við gagnaðila. Með úrskurði 2. desember 2021 í máli nr. 1/2021 var kæru leyfisbeiðanda vísað frá nefndinni.

4. Héraðsdómur felldi úrskurðinn úr gildi og taldi að leyfisbeiðandi gæti borið gildi sáttarinnar undir áfrýjunarnefnd samkeppnismála. Landsréttur taldi hins vegar að aðili að samráðsmáli sem ekki hefði viðurkennt samkeppnisbrot sem til rannsóknar hefði verið, eins og ætti við um leyfisbeiðanda, gæti ekki talist aðili að sátt annars aðila sem viðurkennt hefði slíkt brot. Ætti það bæði við um þau skilyrði sem viðkomandi aðili hefði undirgengist með sáttinni og greiðslu sektar. Aðild að stjórnsýslumáli er varðaði ólögmætt samráð sem væri lokið gagnvart einum aðila gæti ekki sjálfkrafa leitt til aðildar annars málsaðila að þeirri úrlausn, enda beindust þau málalok að þeim sem gengist hefði undir sáttina. Landsréttur vísaði til þess að við rannsókn gagnaðila á ætluðum brotum leyfisbeiðanda hefði hann átt kost á að koma sínum sjónarmiðum að, meðal annars varðandi skuldbindingar Eimskipa samkvæmt sátt við gagnaðila og áhrif sáttarinnar á hagsmuni leyfisbeiðanda. Var leyfisbeiðandi því ekki talinn hafa sýnt fram á lögvarða hagsmuni af úrlausn um hvaða skuldbindingu Eimskip gengust undir gagnvart gagnaðila með sátt þeirra á milli. Leyfisbeiðandi var ekki talinn njóta kæruaðildar fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnismála vegna þeirrar ákvörðunar gagnaðila sem fólst í gerð sáttarinnar og var gagnaðili því sýknaður af kröfum hans.

5. Leyfisbeiðandi telur að niðurstaða Landsréttar hafi verulegt fordæmisgildi og varði mikilsverða hagsmuni sína. Ekki hafi áður gerst að gagnaðili hafi sett bindandi fyrirmæli í sátt sem beinist að fyrirtæki sem stendur utan sáttar. Leyfisbeiðandi telur að sáttin brjóti gegn rétti hans til að teljast saklaus uns sekt er sönnuð og atvinnufrelsi hans. Skilyrðin í sáttarákvæðinu sem ógildingarkrafan beinist að hafi í för með sér að leyfisbeiðanda og Eimskipum sé eftirleiðis óheimilt að notast við sömu þjónustuaðila eða eiga í viðskiptum við sömu fyrirtæki í flutningsþjónustu nema Eimskip sýni fram á að slík viðskipti séu ekki samkeppnishamlandi. Þetta geti haft þær afleiðingar að þjónustufyrirtæki í flutningastarfsemi sem leyfisbeiðandi hafi átt í viðskiptum við kjósi frekar að eiga viðskipti við Eimskip en leyfisbeiðanda, enda ljóst að hagsmunir þeirra af viðskiptum við Eimskip séu mun meiri. Eimskip séu stærra fyrirtæki en leyfisbeiðandi og með einokunarstöðu á sumum mörkuðum. Keppinautar Eimskipa eigi af þessum sökum mikla hagsmuni af því að geta átt viðskipti við fyrirtækið. Með sáttinni séu möguleikar leyfisbeiðanda til að eiga viðskipti við Eimskip takmarkaðir og samkeppnisstaða hans þannig skert. Leyfisbeiðandi hafi því sérstaklega mikilvæga hagsmuni af því að fá dómi Landsréttar hnekkt.

6. Að virtum gögnum málsins verður talið að dómur í því geti haft fordæmisgildi, einkum um réttaráhrif stjórnvaldssáttar á sviði samkeppnisréttar á þriðja aðila og möguleika hans á að bera gildi ákvæða í slíkri sátt, sem kunna að varða hagsmuni hans, undir áfrýjunarnefnd samkeppnismála. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.