Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-90
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Hæfi dómara
- Kæruheimild
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.
2. Með beiðni 22. júní 2022 leitar Sjöstjarnan ehf. leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 9. sama mánaðar í máli nr. 252/2022: Sjöstjarnan ehf. gegn KPMG ehf. og LOGOS slf. Um kæruheimild er vísað til 1. og 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili KPMG ehf. tekur ekki afstöðu til beiðninnar. Gagnaðili LOGOS slf. leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda á hendur gagnaðilum KPMG ehf. og LOGOS slf. um greiðslu nánar tilgreindrar fjárhæðar og til viðurkenningar á skaðabótaábyrgð vegna ætlaðs tjóns sem stafaði af kyrrsetningu tilgreindra fasteigna í eigu leyfisbeiðanda.
4. Með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur 12. apríl 2022 var kröfum leyfisbeiðanda gegn gagnaðila LOGOS slf. vísað frá dómi. Þá var seinni kröfu leyfisbeiðanda á hendur gagnaðila KPMG ehf. vísað frá héraðsdómi en öðrum frávísunarkröfum gagnaðila KPMG ehf. hafnað. Með úrskurði Landsréttar 9. júní sama ár var niðurstaða héraðsdóms um frávísun á kröfum leyfisbeiðanda gagnvart gagnaðila LOGOS slf. staðfest en lagt fyrir héraðsdóm að taka til úrlausnar fyrrgreinda kröfu leyfisbeiðanda gagnvart gagnaðila KPMG ehf.
5. Leyfisbeiðandi reisir beiðni sína um kæruleyfi á því að einn dómenda málsins í Landsrétti hafi verið vanhæfur til meðferðar þess. Því til stuðnings vísar hann meðal annars til þess að fyrirsvarsmaður og eigandi leyfisbeiðanda hafi í opinberri umræðu sett fram harða gagnrýni á störf dómarans. Við þær aðstæður séu uppi efasemdir um óhlutdrægni dómarans í garð þess einstaklings. Til stuðnings því að kæruleyfi skuli veitt byggir leyfisbeiðandi einnig á því að kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni, hafi fordæmisgildi og grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins. Loks byggir hann á því að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur. Um það vísar hann meðal annars til þess að þar hafi ekki verið tekin afstaða til tilgreindra málsástæðna hans.
6. Samkvæmt gögnum málsins var leyfisbeiðanda og gagnaðilum tilkynnt af hálfu Landsréttar 16. maí 2022 að málinu hefði verið úthlutað til þriggja dómara réttarins og að um skriflega flutt kærumál væri að ræða. Frá þeim tíma og þar til úrskurður Landsréttar var kveðinn upp 9. júní sama ár neytti leyfisbeiðandi ekki heimildar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 91/1991 til að krefjast þess að umræddur dómari viki sæti í málinu. Kom því ekki til þess að Landsréttur kvæði upp úrskurð þar sem tekin væri afstaða til þeirra röksemda er leyfisbeiðandi heldur nú fram um ætlað vanhæfi þess dómara. Heimilt hefði verið án leyfis að kæra slíkan úrskurð Landsréttar til Hæstaréttar, sbr. b-lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991.
7. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 167. gr. laganna er heimilt án leyfis að kæra til Hæstaréttar úrskurð Landsréttar ef þar hefur verið mælt fyrir um frávísun máls frá héraðsdómi eða Landsrétti ef ekki er um að ræða staðfestingu á slíkri dómsathöfn héraðsdóms. Getur úrskurður Landsréttar samkvæmt því sætt kæru til Hæstaréttar hafi þar verið tekin ákvörðun um að vísa máli frá héraðsdómi sem ekki hefur fyrr verið gert. Á hinn bóginn sætir úrskurður Landsréttar ekki kæru til Hæstaréttar eftir framangreindri heimild ef þar hefur verið staðfestur úrskurður héraðsdóms um frávísun svo sem hér á við að því er varðar gagnaðila LOGOS slf. Þá sætir sá þáttur málsins er varðar gagnaðila KPMG ehf. ekki heldur kæru til Hæstaréttar eftir sömu heimild.
8. Einungis í þeim þeim tilvikum þar sem mælt er fyrir um kæruheimild í öðrum lögum er unnt að sækja um leyfi Hæstaréttar til að kæra úrskurði Landsréttar samkvæmt 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Reynir þar á mat Hæstaréttar á því hvort kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni, hafi fordæmisgildi eða grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins eða hvort ástæða er til að ætla að hin kærða dómsathöfn sé bersýnilega röng að formi eða efni. Í máli þessu hagar á hinn bóginn svo til að sérstaka kæruheimild um það efni sem beiðni um kæruleyfi lýtur að er ekki að finna í öðrum lögum. Þegar af þeirri ástæðu er beiðni um kæruleyfi hafnað.