Hæstiréttur íslands
Nr. 2024-169
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Fasteign
- Fasteignakaup
- Galli
- Skoðunarskylda
- Upplýsingaskylda
- Matsgerð
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 11. desember 2024 leita Ásmundur Magnússon og Sigurður Jónsson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 14. nóvember sama ár í máli nr. 558/2023: Ingigerður Sæmundsdóttir gegn Ásmundi Magnússyni og Sigurði Jónssyni. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort fasteign sem gagnaðili seldi leyfisbeiðendum hafi verið haldin göllum þannig að þeir eigi rétt til greiðslu skaðabóta eða afsláttar úr hendi gagnaðila.
4. Með dómi Landsréttar var talið að leyfisbeiðendur hefðu með matsgerð dómkvadds manns sannað að frágangur þakniðurfalla og staðsetning og gerð eldvarnarhurðar hefði falið í sér galla í skilningi laga nr. 40/2002 um fasteignakaup. Þá hefði gagnaðili sýnt af sér saknæma háttsemi við sölu eignarinnar þar sem söluyfirlit hennar hafði ekki að geyma upplýsingar um leka frá stofuglugga. Aftur á móti var talið að frágangur glugga í fasteigninni hefði verið í samræmi við góðar venjur og faglegar kröfur á þeim tíma sem húsið var byggt. Þar sem ekki hefði verið staðreynt að aðrir gluggar en stofugluggar lækju taldi Landsréttur ósannað að aðrir gluggar í húsinu væru gallaðir í skilningi laga nr. 40/2002. Að virtri dómaframkvæmd taldi Landsréttur ekki efni til að telja að ágallar á hinni seldu fasteign, sem námu 6,43% af kaupverði, rýrðu verðmæti hennar svo nokkru varðaði í skilningi 18. gr. laganna. Var gagnaðili því sýknuð af kröfum leyfisbeiðenda um skaðabætur og afslátt vegna annarra kröfuliða en úrbóta á stofugluggum, enda hefði ekki verið sýnt fram á að hún hefði sýnt af sér saknæma háttsemi hvað þá kröfuliði varðar. Voru leyfisbeiðendur dæmdir til að greiða eftirstöðvar kaupverðs eignarinnar með vöxtum að frádregnum kostnaði við úrbætur á stofugluggum.
5. Leyfisbeiðendur byggja á að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um þýðingu matsgerða dómkvaddra manna. Þá sé niðurstaða Landsréttar ekki í samræmi við matsgerð. Einnig telja leyfisbeiðendur að dómur Landsréttar sér bersýnilega rangur hvað varðar galla á þakveggjum/bitum og öðrum gluggum hússins en stofugluggum. Matsgerðin í málinu sé afdráttarlaus um ágalla á þessum byggingarhlutum og nauðsyn til úrbóta. Sú niðurstaða Landsréttar að frágangur glugganna sé í samræmi við faglegar kröfur á þeim tíma sem húsið var byggt sé með öllu órökstudd. Að lokum telja leyfisbeiðendur að dómur Landsréttar sé rangur enda sé það verulega ósanngjarnt að þeim sé gert að greiða dráttarvexti af eftirstöðvum kaupverðs þegar fallist er kröfur leyfisbeiðenda að hluta.
6. Að virtum gögnum málsins er ekki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi eða varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðenda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.