Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-128

Kristjana M. Guðmundsdóttir og Elmar Ágúst Garðarsson (Hildur Ýr Viðarsdóttir lögmaður )
gegn
Höllu Oddnýju Jónsdóttur (Gestur Jónsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Fasteignakaup
  • Galli
  • Upplýsingagjöf
  • Skoðunarskylda
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Björg Thorarensen, og Skúli Magnússon.

2. Með beiðni 8. júlí 2025 leita Kristjana M. Guðmundsdóttir og Elmar Ágúst Garðarsson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 12. júní sama ár í máli nr. 332/2024: Halla Oddný Jónsdóttir gegn Kristjönu M. Guðmundsdóttur og Elmari Ágústi Garðarssyni. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Í málinu kröfðust leyfisbeiðendur skaðabóta og/eða afsláttar vegna verulegra galla sem þau byggja á að fasteign sem þau keyptu af gagnaðila hafi verið haldin.

4. Í dómi héraðsdóms var gagnaðila gert að greiða leyfisbeiðendum samtals 5.450.450 krónur í skaðabætur auk málskostnaðar. Með dómi Landsréttar var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að ósannað væri að gagnaðili eða þeir sem komu fram fyrir hennar hönd hefðu sýnt af sér saknæma háttsemi í aðdraganda kaupanna eða gefið rangar upplýsingar um ástand íbúðarinnar. Hafi íbúðin því ekki verið gölluð í skilningi 26. eða 27. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup. Þá var lagt til grundvallar að leyfisbeiðendur gætu ekki borið fyrir sig þá ágalla sem komu í ljós við nánari skoðun íbúðarinnar. Var þá horft til þess að um væri að ræða eign sem reist var á fjórða áratug síðustu aldar en risíbúð leyfisbeiðenda var byggð ofan á húsið 1974. Þá hefðu leyfisbeiðendur fyrir gerð kauptilboðs verið upplýst um að gluggar eignarinnar væru í lélegu ástandi og eignin þarfnaðist endurbóta. Eins og atvikum væri háttað þótti rétt að líta svo á að þessar upplýsingar hefðu í eðli sínu falið í sér áskorun til leyfisbeiðenda um að skoða eignina nánar. Var gagnaðili sýknuð af kröfu leyfisbeiðenda.

5. Leyfisbeiðendur byggja á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi og feli í sér nýja nálgun á aðgæsluskyldu kaupenda við kaup á eldri fasteignum. Ekki verði séð að upplýsingar um lélegt ástand glugga hafi getað gefið til kynna að allt þak fasteignarinnar þarfnaðist endurbóta og útveggir væru rakaskemmdir. Ekki verði ráðið af dómaframkvæmd að upplýsingar um slit á einum byggingarhluta geti falið í sér áskorun til kaupanda um að skoða eignina nánar. Þá byggja leyfisbeiðendur á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur. Það sé rangt að í málinu hafi legið fyrir upplýsingar um heilsufar gagnaðila sem urðu þess valdandi að hún gæti ekki veitt upplýsingar um ástand fasteignarinnar. Einnig sé það rangt að upplýsingar og hvatning til að skoða eignina vandlega sem bárust eftir að samningurinn var kominn á geti haft áhrif á aðgæsluskyldu leyfisbeiðenda. Að lokum byggja leyfisbeiðendur á því að niðurstaðan varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína enda hafi þau lagt aleiguna í fasteignakaupin.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant eða dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.