Hæstiréttur íslands
Nr. 2024-79
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Húsaleigusamningur
- Force majeure
- Sönnun
- Sönnunarbyrði
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 19. júní 2024 leitar 65° Ubuntu ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 24. maí sama ár í máli nr. 245/2023: Lárus Lárberg ehf. gegn 65° Ubuntu ehf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila á hendur leyfisbeiðanda um vangoldna húsaleigu á grundvelli samnings sem aðilar gerðu sín á milli í mars 2018 um leigu leyfisbeiðanda á fasteign gagnaðila í því skyni að reka þar gistiheimili.
4. Með héraðsdómi var leyfisbeiðandi sýknaður af kröfu gagnaðila en með dómi Landsréttar var krafa gagnaðila að fullu tekin til greina. Óumdeilt var í málinu að vegna minnkandi tekna leyfisbeiðanda af rekstri gistiheimilis, sem rekja mátti til heimsfaraldurs Covid-19, krafðist gagnaðili ekki fullrar leigu af fasteigninni á tímabilinu apríl 2020 til febrúar 2021. Byggði leyfisbeiðandi á því að vegna þessara aðstæðna hefði gagnaðili gefið eftir hluta leigunnar. Því mótmælti gagnaðili og hélt því fram að í samkomulagi þeirra hefði það eitt falist að gagnaðili hefði veitt leyfisbeiðanda greiðslufrest að því er tók til fullrar leigu á umræddu tímabili og eingöngu innheimt þann hluta hennar sem í grunninn hefði tekið mið af greiðslugetu leyfisbeiðanda hverju sinni. Landsréttur tók fram að samkvæmt ákvæðum húsaleigulaga nr. 36/1994 og almennum sönnunarreglum hvíldi á leigutaka sönnunarbyrði fyrir því að samið hefði verið munnlega um lækkun á leigu frá því sem kveðið væri á um í skriflegum húsaleigusamningi. Ekki var talið að leyfisbeiðandi hefði sýnt fram á að gagnaðili hefði á grundvelli munnlegs samkomulags leyst hann undan þeirri skuldbindingu um greiðslu leigu sem hann hafði gengist undir með leigusamningi aðila.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi, einkum um hvernig sóttvarnaraðgerðir og afleiðingar heimsfaraldurs árið 2020 hafi getað haft áhrif á samningssamband aðila og áhrif meginreglunnar um force majuere. Þá hafi dómurinn verulegt almennt gildi um sönnunarfærslu og sönnunarmat fyrir dómi. Leyfisbeiðandi byggir einnig á því að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína. Loks byggir hann á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi og efni. Litið hafi verið fram hjá gögnum sem leyfisbeiðandi hafi lagt fram auk þess sem vikið hafi verið frá dómafordæmum Hæstaréttar.
6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki talið að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.