Hæstiréttur íslands
Nr. 2018-268
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Einkahlutafélag
- Samruni
- Hlutabréf
- Þjónustukaup
- Fjármálafyrirtæki
- Skaðabætur
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Með beiðni 27. desember 2018 leitar ET sjón ehf. eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 30. nóvember sama ár í málinu nr. 377/2018: ET sjón ehf. gegn Kviku banka hf., á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Kvika banki hf. leggst gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að viðurkennd verði skaðabótaskylda Kviku banka hf. á tjóni leyfisbeiðanda vegna þjónustu í tengslum við kaup hans á hlutum í Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni ehf. í gegnum Eignarhaldsfélagið Þorgerði ehf. Reisir leyfisbeiðandi kröfu sína einkum á því að við gerð áreiðanleikakönnunar vegna kaupanna hafi ekki verið tekið tillit til þess að óvissa ríkti um lögmæti skattskila Ölgerðarinnar Egils Skallagrímssonar ehf. í kjölfar öfugs samruna félagsins við Límonaði ehf. árið 2007 og hafi leyfisbeiðandi orðið fyrir tjóni af þeim sökum. Þá ber leyfisbeiðandi einnig fyrir sig að í könnuninni hafi ekki nægilega verið gerð grein fyrir fjármögnunarleigusamningum í erlendri mynt sem félagið hafi gert við lánastofnun. Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði Kviku banka hf. af kröfu leyfisbeiðanda og staðfesti Landsréttur þá niðurstöðu með framangreindum dómi.
Leyfisbeiðandi byggir á því að málið hafi verulegt almennt gildi og lúti að atriðum á sviði fjármunaréttar sem hafi ekki fyrr komið til kasta Hæstaréttar. Í þeim efnum vísar hann til þess að mikilvægt sé að fá úrlausn réttarins um það álitaefni hvaða reglur gildi um milligöngu fjármálafyrirtækja við kaup og sölu hluta í einkahlutafélögum. Jafnframt sé brýnt að tekin verði afstaða til þess hvaða skyldur hvíli á fjármálafyrirtæki sem tekur að sér gerð áreiðanleikakönnunar og hagsmunagæslu við slíka kaupsamningsgerð gegn þóknun. Þá sé mikilvægt að fá úrlausn réttarins um það hvort seinni tíma ávinningur af fjárfestingu sem er ótengdur tjónsatviki leiði til þess að kaupandi geti ekki gert kröfu á hendur seljanda eða milligöngumanni vegna tjóns sem rakið verði til áhættu sem hann hafi ekki verið upplýstur um við kaupsamningsgerð. Loks telur leyfisbeiðandi að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína.
Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í máli þessu myndi hafa almennt gildi um réttarreglur um milligöngu fjármálafyrirtækja við kaup og sölu hluta í einkahlutafélögum og hvaða kröfur verði gerðar til fjármálafyrirtækja við gerð áreiðanleikakannana í tengslum við slík kaup. Er beiðnin því tekin til greina.