Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-4

Tryggingastofnun ríkisins (Ingvi Snær Einarsson lögmaður)
gegn
A og Öryrkjabandalagi Íslands (Daníel Isebarn Ágústsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Fyrning
  • Kröfuréttur
  • Vextir
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.

2. Með beiðni 9. janúar 2024 leitar Tryggingastofnun ríkisins leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja beint til réttarins dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 14. desember 2023 í máli nr. E-2665/2023: A og Öryrkjabandalag Íslands gegn Tryggingarstofnun ríkisins og íslenska ríkinu. Gagnaðilar leggjast ekki gegn beiðninni.

3. Mál þetta varðar ágreining um það við hvaða tímabil skuli miða endurgreiðslu leyfisbeiðanda til gagnaðila á vangreiddri sérstakri uppbót á lífeyri, samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Með dómi Hæstaréttar 6. apríl 2022 í máli nr. 52/2021 var komist að þeirri niðurstöðu að ólögmætur væri sá áskilnaður, sem fram kom í reglugerð, að greiða skyldi uppbótina að teknu tilliti til búsetu hér á landi. Endurgreiðslur leyfisbeiðanda í kjölfar dómsins voru miðaðar við fjögur ár aftur í tímann frá því Hæstiréttur kvað upp dóm sinn í máli nr. 52/2021 og tóku til tímabilsins 1. maí 2018 til 1. maí 2022. Að auki voru greiddir 5,5% ársvextir. Í málinu krefst gagnaðilinn A greiðslu uppbótar fyrir tímabilið 1. maí 2012 til 1. maí 2018 og gagnaðilinn Öryrkjabandalag Íslands krefst fyrir hönd félagsmanna sinna greiðslna fyrir tímabilið 1. janúar 2012 til 1. maí 2018.

4. Með héraðsdómi var fallist á aðalkröfur gagnaðila að undanskilinni kröfu um dráttarvexti. Taldi dómurinn að líta yrði til lögskýringargagna að baki 1. mgr. 10 gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda en þau bæru með sér að ákvæðinu væri ætlað að fela í sér rýmri rétt til slíks viðbótarfrests en gilti samkvæmt 7. gr. eldri laga. nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Í tilvitnuðum athugasemdum með frumvarpinu sem varð að lögum nr. 150/2007 komi fram að skortur á vitneskju um kröfu í skilningi ákvæðisins geti komið til ef viðkomandi fengi til dæmis „ranglega upplýsingar“ um að krafa hans væri ekki til. Er litið svo á í forsendum héraðsdóms að ráðherra hafi sem handhafi framkvæmdarvalds sett reglugerð og birt borgurum þar sem ranglega hafi verið gefið til kynna að þeir ættu ekki frekari kröfur en ella vegna búsetuskerðingar. Eins og atvikum væri háttað féllst dómurinn á að ákvæði 1. mgr. 10. gr. laga nr. 150/2007 ætti við í málinu með þeim afleiðingum að kröfur sem ella hefðu fyrnst á fjórum árum fyrndust þess í stað aldrei fyrr en einu ári eftir uppkvaðningu fyrrnefnds dóms Hæstaréttar í máli nr. 52/2021.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að fordæmisgildi dóms í málinu sé töluvert þar sem ekki hafi reynt á sambærileg álitaefni fyrir íslenskum dómstólum. Þá hafi dómur í málinu almenna þýðingu fyrir beitingu réttarreglna og túlkun ákvæðis 1. mgr. 10. gr. laga nr. 150/2007. Að lokum byggir leyfisbeiðandi á því að niðurstaða í málinu kunni að hafa samfélagslega þýðingu. Verði fallist á dómkröfur gagnaðila hafi það í för með sér endurgreiðslur til fjölda lífeyrisþega og hlaupi fjárhagslegir hagsmunir á verulegum fjárhæðum.

6. Að virtum gögnum málsins og því sem rakið hefur verið hér að framan verður að líta svo á að dómur í því geti haft fordæmisgildi og verulega almenna þýðingu fyrir beitingu 1. mgr. 10 gr. laga nr.150/2007. Þá eru ekki til staðar í málinu þær aðstæður sem komið geta í veg fyrir að leyfi til að áfrýjunar beint til Hæstaréttar verði veitt á grundvelli 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991, sbr. lög nr. 134/2022. Beiðni leyfisbeiðanda um leyfi til áfrýjunar héraðsdóms til Hæstaréttar er því samþykkt.