Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-268

A (Björgvin Jónsson lögmaður)
gegn
barnaverndarnefnd Reykjavíkur (Dagmar Arnardóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Börn
  • Barnavernd
  • Forsjársvipting
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 29. október 2021 leitar A leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 1. sama mánaðar í máli nr. 335/2021: A gegn barnaverndarnefnd Reykjavíkur á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst ekki gegn beiðninni en telur þó ekki að sérstök rök hnígi til þess að hún skuli samþykkt önnur en eðli hagsmuna leyfisbeiðanda.

3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um að leyfisbeiðandi verði svipt forsjá þriggja barna sinna á grundvelli a- og d-liða 29. gr. barnalaga nr. 80/2002. Héraðsdómur tók til greina kröfu gagnaðila um að svipta leyfisbeiðanda forsjá tveggja sona sinna. Dómurinn hafnaði hins vegar kröfu um að hún yrði svipt forsjá dóttur sinnar sem var á unglingsaldri en þeirri niðurstöðu var ekki skotið til Landsréttar. Landsréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms með vísan til forsendna hans.

4. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrlausn málsins hafi verulegt almennt gildi og varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína. Þá sé dómur Landsréttar rangur að efni til. Í fyrsta lagi hafi í dómi héraðsdóms sem staðfestur hafi verið með vísan til forsendna verið byggt á forsjármati og geðmati sem ekki hafi verið marktæk þar sem þau hafi verið gerð á tímabili sem hún hafi átt mjög erfitt vegna áfalla. Það hafi sálfræðingur og geðlæknir staðfest með vottorðum og vitnisburðum. Í öðru lagi hafi verið horft fram hjá þeim góða árangri sem hún hafi náð á stuttum tíma og ranglega verið tekið undir það mat gagnaðila að regluleg meðferðarviðtöl væru henni ekki nægjanlegt úrræði. Í þriðja lagi hafi sönnunarkröfum 1. mgr. 29. gr. barnalaga ekki verið fullnægt. Í fjórða lagi þurfi skilyrði forsjársviptingar að vera uppfyllt þegar mál er tekið til dóms og fyrirsjáanlegt að þau verði það áfram til framtíðar. Leyfisbeiðandi telur auk þess óeðlilegt að rökstyðja jafn alvarlegt inngrip með því að líta til aðstæðna hennar allt aftur til ársins 2002. Loks sé ótækt að Landsréttur hafi ekki rökstutt niðurstöðu sína með neinum hætti.

5. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Í því tilliti er þess að gæta að þótt málið varði mikilvæga hagsmuni þá háttar svo almennt til í málum sem varða forsjá barna og skyld málefni þeirra. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.