Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-113

A (Magnús M. Norðdahl lögmaður)
gegn
íslenska ríkinu (Óskar Thorarensen lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Útlendingur
  • Stjórnsýsla
  • Stjórnvaldsákvörðun
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 15. júlí 2022 leitar A leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 24. júní sama ár í máli nr. 267/2021: A gegn íslenska ríkinu á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst ekki gegn beiðninni en dregur þó í efa að skilyrði nefnds lagaákvæðis um veitingu áfrýjunarleyfis séu uppfyllt.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að felldur verði úr gildi úrskurður kærunefndar útlendingamála 20. nóvember 2018 þar sem leyfisbeiðanda var synjað um alþjóðlega vernd hér á landi og um dvalarleyfi af mannúðarástæðum.

4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu gagnaðila. Landsréttur rakti að ekkert hefði verið fært fram í málinu til að hnekkja þeirri ályktun kærunefndarinnar að sú læknismeðferð sem dóttir leyfisbeiðanda þyrfti á að halda stæði henni til boða í bæði heimaríki leyfisbeiðanda sem og heimaríki eiginmanns hennar. Því væru ekki fyrir hendi sérstök verndarsjónarmið sem leiddu til þess að talið yrði að aðstæður leyfisbeiðanda vegna veikinda dóttur hennar hefðu breyst þannig að þær væru svo alvarlegar að veita bæri leyfisbeiðanda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga. Þá var fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að rannsókn og meðferð á máli leyfisbeiðanda hefði ekki verið svo áfátt að hún hefði brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eða meðalhófsreglu 12. gr. sömu laga. Loks var ekki talið að atvik væru með þeim hætti að ákvæði 3. mgr. 102. gr. laga nr. 80/2016 stæði því í vegi að leyfisbeiðanda yrði vísað frá landinu.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Um það vísar hún meðal annars til þess að lög nr. 80/2016 og barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna, sem innleiddur var í íslenska löggjöf með lögum nr. 19/2013, kveði á um skyldu íslenskra stjórnvalda til að taka allar ákvarðanir sem varða börn með hagsmuni þeirra að leiðarljósi. Telur leyfisbeiðandi að þessi grundvallarregla hafi verið virt að vettugi í málinu og að dómur Hæstaréttar geti haft almenn áhrif á niðurstöðu og úrvinnslu mála sem varða flóttamenn með börn. Þá telur leyfisbeiðandi að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína, meðal annars til að tryggja dóttur sinni viðeigandi læknismeðferð og meiri lífsgæði í framtíðinni. Loks reisir hún beiðni sína á því að málsmeðferð fyrir héraðsdómi og Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant. Því til stuðnings vísar hún til þess að á hvorugu dómstigi hafi verið tekið tillit til þess að Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála rannsökuðu ekki einstaklingsbundnar aðstæður hennar. Af þeim sökum hafi réttur hennar til sanngjarnrar og réttlátrar málsmeðferðar ekki verið virtur.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki séð að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að leyfisbeiðandi hafi sérstaklega mikilvæga hagsmuni af áfrýjun eins og málið liggur fyrir í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Í því tilliti er þess að gæta að þótt málið varði mikilvæga hagsmuni hennar þá háttar svo almennt til í málum sem lúta að alþjóðlegri vernd hér á landi og um dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Þá verður ekki séð að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.