Hæstiréttur íslands
Nr. 2019-365
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Vinnuslys
- Sönnun
- Sönnunarbyrði
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson.
Með beiðni 18. desember 2019 leitar A leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 29. nóvember sama ár í málinu nr. 217/2019: Vörður tryggingar hf. og B ehf. gegn A, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Vörður tryggingar hf. og B ehf. leggjast gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um viðurkenningu bótaskyldu gagnaðila vegna líkamstjóns sem hann kveðst hafa orðið fyrir 18. janúar 2013 við störf sín hjá gagnaðilanum B ehf. þegar hann féll úr stiga á steinsteypt gólf. Leyfisbeiðandi byggir kröfu sína á hinni almennu sakarreglu skaðabótaréttar og reglunni um vinnuveitandaábyrgð. Meirihluti dómenda í héraði féllst á kröfu leyfisbeiðanda um bótaskyldu gagnaðila. Lagt var til grundvallar að vinnuveitandi hefði vanrækt að rannsaka slysið og sönnunarbyrði um orsök þess því lögð á hann. Meirihluti dómenda í Landsrétti sýknaði á hinn bóginn gagnaðila þar sem talið var ósannað að vanbúnaður vélar, sem leyfisbeiðandi vann við er slysið varð, hefði valdið því. Vísað var til þess að leyfisbeiðandi hefði ekki fyrr en tæpu ári eftir slysið lýst því að vanbúnaður vélarinnar hefði valdið slysinu og engin gögn styddu þá fullyrðingu hans. Þá hefði vinnuveitandi tilkynnt slysið til lögreglu og Vinnueftirlits ríkisins og gæti ekki borið ábyrgð á því, eins og atvikum væri háttað, að eftirlitið hefði ekki rannsakað orsakir slyssins. Vísaði rétturinn einnig til þess að leyfisbeiðandi hefði notið aðstoðar lögmanns að minnsta kosti frá júní 2013 og því væri ekki fallist á að tungumálaörðugleikar gætu réttlætt hve seint lýsing hans á orsökum slyssins hefði komið fram. Einn dómari Landsréttar skilaði sératkvæði þar sem hann lýsti sig sammála niðurstöðu meirihluta dómenda í héraði.
Leyfisbeiðandi byggir á að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til þar sem sönnunarmat dómsins sé rangt. Leyfisbeiðandi eigi ekki að bera hallann af því að tildrög slyssins hafi ekki verið nægilega rannsökuð enda hafi það verið á ábyrgð vinnuveitanda sem meðal annars hafi ekki tilkynnt um slysið til Vinnueftirlits ríkisins innan lögboðins frests samkvæmt 79. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Með vísan til dómaframkvæmdar Hæstaréttar skuli við slíkar aðstæður leggja frásögn leyfisbeiðanda til grundvallar um orsök slyssins. Þá tali leyfisbeiðandi hvorki íslensku né ensku og því hafi reynst honum erfitt að afla sér upplýsinga um réttindi sín og koma frásögn sinni um slysið á framfæri. Af þessum sökum hafi úrslit málsins jafnframt verulegt almennt gildi, auk þess sem málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda.
Af virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í því geti haft fordæmisgildi um atriði sem leyfisbeiðnin er reist á. Er umsókn leyfisbeiðanda um áfrýjunarleyfi því tekin til greina.