Hæstiréttur íslands
Nr. 2018-255
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Útboð
- Stjórnsýsla
- Sveitarfélög
- Skaðabætur
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Með beiðni 10. desember 2018 leita Laugar ehf. eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 16. nóvember sama ár í málinu nr. 205/2018: Laugar ehf. gegn Kópavogsbæ, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Kópavogsbær leggst gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um skaðabætur vegna tjóns sem hann kveðst hafa orðið fyrir sökum þess að Kópavogsbær hafi í útboði á árinu 2014 hafnað tilboði hans um leigu á líkamsræktaraðstöðu við sundlaugar í bænum. Taldi Kópavogsbær að tilboð leyfisbeiðanda hafi ekki fullnægt skilmálum útboðsins um að því skyldu fylgja endurskoðaðir ársreikningar fyrir árin 2012 og 2013 en fyrir opnun tilboða hafi leyfisbeiðandi aðeins afhent óendurskoðaða ársreikninga og hafi eigið fé hans verið neikvætt samkvæmt þeim. Reisir leyfisbeiðandi skaðabótakröfu sína á því að við meðferð málsins hafi verið brotið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og óskráðum reglum stjórnsýsluréttar auk þess sem farið hafi verið á svig við grunnreglur um útboð. Héraðsdómur Reykjaness sýknaði Kópavogsbæ af kröfu leyfisbeiðanda og staðfesti Landsréttur þá niðurstöðu með framangreindum dómi.
Leyfisbeiðandi byggir á því að málið hafi verulegt almennt gildi þar sem það sé til þess fallið að eyða vafa um túlkun dóma Hæstaréttar um gildissvið stjórnsýslulaga þegar ríkið eða sveitarfélög ráðstafi takmörkuðum opinberum gæðum. Þá telur leyfisbeiðandi að dómur Landsréttar sé í andstöðu við dómaframkvæmd Hæstaréttar um skýringu útboðsskilmála og þannig rangur að efni til. Loks vísar leyfisbeiðandi til þess að málið varði mikilvæga fjárhagslega hagsmuni sína.
Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi umfram dómsúrlausnir sem áður hafa gengið né að það varði mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Er beiðninni því hafnað.