Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-63
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Vátryggingarsamningur
- Líftrygging
- Erlend réttarregla
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 27. apríl 2023 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 31. mars 2023 í máli nr. 518/2021: A gegn Vátryggingafélagi Íslands hf. og Líftryggingafélagi Íslands hf. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um vátryggingarbætur vegna andláts eiginmanns síns og tveggja stjúpdætra í skipbroti í Víetnam en aðila greinir á um það hvort sönnun sé fram komin um andlát þeirra. Gagnaðilar höfnuðu bótaskyldu.
4. Með dómi Landsréttar var héraðsdómur staðfestur með vísan til forsendna hans um að sýkna gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda. Var vísað til þess að lögreglurannsókn hefði leitt í ljós að skráning andláta í Þjóðskrá hefði byggt á dánarvottorðum sem hefðu ekki verið gefin út af þeim yfirvöldum í Víetnam sem þau voru sögð stafa frá. Leyfisbeiðandi hefði auk þess viðurkennt að undirritun hennar á sömu vottorð væri fölsuð. Þá voru önnur dánarvottorð sem leyfisbeiðandi aflaði ekki talin hafa verið gefin út af bærum stjórnvöldum í Víetnam með vísan til þarlendrar tilskipunar um skráningu og umsjón með persónustöðu nr. 158/2005/ND-CP. Ekkert þeirra vitna sem leyfisbeiðandi hefði kvatt til skýrslugjafar fyrir dómi hefði borið kennsl á lík hinna látnu, heldur hefði framburður þeirra byggst á frásögn leyfisbeiðanda sjálfrar, yfirvalda sem byggðu á frásögn hennar eða upplýsingum frá ónafngreindum aðilum. Þá var vísað til þeirrar meginreglu að sönnun um andlát væri studd vottorði læknis en hvorki gögn né upplýsingar hefðu komið fram um skoðun læknis á hinum látnu og niðurstöðu um andlát og dánarorsök. Var leyfisbeiðandi ekki talin hafa sannað með fullnægjandi hætti að vátryggingaratburður hefði átt sér stað og voru gagnaðilar því sýknaðir af öllum kröfum hennar. Þá hafnaði Landsréttur kröfu leyfisbeiðanda um ómerkingu héraðsdóms.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Í fyrsta lagi um þann ramma sem aðilum er markaður í lögum nr. 91/1991 til að sanna tilvist og efni erlendra réttarreglna. Í öðru lagi um það hversu ríkar kröfur megi gera til sönnunar um að vátryggingaratburður hafi átt sér stað. Í þriðja lagi um túlkun á meginreglu 31. gr. og 94. gr., sbr. lokamálslið 2. mgr. 120. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingasamninga. Í fjórða lagi um gildi opinberra skráninga og þá stjórnvaldsákvörðun Þjóðskrár að gefa út dánarvottorð feðginanna. Leyfisbeiðandi byggir jafnframt á því að úrslit málsins varði mikilvæga hagsmuni sína, bæði persónulega og fjárhagslega. Loks byggir leyfisbeiðandi á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Annars vegar hafi gagnaðilum ekki tekist að sanna með fullnægjandi hætti efni þeirra erlendu réttarreglna sem þeir hafi byggt mál sitt á enda verði sönnunarskyldu um efni og tilvist erlendrar réttarreglu ekki fullnægt með framlagningu álitsgerða erlendra lögmanna sem ekki hafi verið dómkvaddir. Hins vegar sé úrlausn Landsréttar um frest gagnaðila til að tilkynna leyfisbeiðanda um að félögin hygðust takmarka ábyrgð sína í ósamræmi við dóm Hæstaréttar 9. febrúar 2022 í máli nr. 37/2021.
6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.