Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-98
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Verksamningur
- Sönnun
- Matsgerð
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 8. maí 2025 leitar Marás, vélar ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð, til að áfrýja dómi Landsréttar 10. apríl sama ár í máli nr. 281/2024: Slippurinn Akureyri ehf. gegn Marási, vélum ehf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að ágreiningi aðila um greiðslu kostnaðar við að koma nýjum gír fyrir og setja vél aftur í skip í eigu félagsins Litlalóns ehf. Það félag hafði keypt vél og gír af leyfisbeiðanda og fengið gagnaðila til að koma vélinni og gírnum fyrir skipinu. Síðar kom í ljós að rangur gír hafði verið valinn og setti gagnaðili þá nýjan gír í skipið. Í málinu deila aðilar um hvort leyfisbeiðandi hafi samþykkt að greiða allan kostnað sem myndi falla til af þessum sökum eða einungis kostnað sem hlytist af því að taka vél og gír úr skipinu.
4. Héraðsdómur sýknaði leyfisbeiðanda af kröfu gagnaðila en með dómi Landsréttar var hins vegar fallist á kröfuna og leyfisbeiðanda gert að greiða gagnaðila 7.474.027 krónur. Landsréttur tók fram að í málinu lægi fyrir að aðilar hefðu gert með sér samning um að gagnaðili myndi vinna verkið fyrir leyfisbeiðanda vegna mistaka sem urðu við val á gír í skipið. Leyfisbeiðandi hefði útvegað nýjan gír og komið honum til gagnaðila. Þá lægi fyrir að leyfisbeiðandi hefði staðfest að hann myndi greiða kostnað sem hlytist af því að taka vél og gír úr skipinu en hann byggði hins vegar á því að hann hefði ekki samþykkt að bera kostnað af því að setja nýja gírinn í skipið og koma vélinni aftur fyrir. Landsréttur rakti að fyrir lægi að starfsmaður gagnaðila hefði sent starfsmanni leyfisbeiðanda tölvupóst þar sem fram kæmi sá skilningur að leyfisbeiðandi myndi greiða allan kostnað við verkið. Ósannað væri að leyfisbeiðandi hefði gert athugasemdir við skilning gagnaðila á verkbeiðninni og yrði leyfisbeiðandi að bera hallann af þeim sönnunarskorti. Taldi Landsréttur að sannað væri að samningur hefði komist á milli aðila um að gagnaðili tæki að sér gegn hæfilegri greiðslu að skipta um gír í skipinu. Í málinu lægi fyrir matsgerð þar sem sanngjarn og eðlilegur heildarkostnaður hefði verið metinn 10.892.533 krónur en leyfisbeiðandi hefði þegar greitt 3.418.256 krónur.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrlausn málsins hafi verulegt almennt gildi. Það sé einnig fordæmisgefandi um sönnunarkröfur, sönnunarbyrði og hvor samningsaðila eigi að bera hallann af sönnunarskorti í tilviki munnlegs samnings um verkþátt sem unninn sé í þágu þriðja aðila. Þannig kunni dómur í málinu að skýra réttarstöðu um munnlega samninga innan verktakaréttar þar sem annar en ætlaður samningsaðili njóti góðs af verkinu. Leyfisbeiðandi byggir að auki á því að ástæða sé til að ætla að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.