Hæstiréttur íslands

Nr. 2019-72

Ólafur Ólafsson (Hjördís Halldórsdóttir lögmaður)
gegn
ríkissaksóknara og íslenska ríkinu (enginn)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Endurupptaka
  • Stjórnvaldsákvörðun
  • Hafnað

 

Ákvörðun Hæstaréttar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Greta Baldursdóttir og Viðar Már Matthíasson.

Með beiðni 14. febrúar 2019 leitar Ólafur Ólafsson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 25. janúar sama ár í málinu nr. 306/2018: Ólafur Ólafsson gegn ríkissaksóknara og íslenska ríkinu, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Ríkissaksóknari og íslenska ríkið taka ekki afstöðu til beiðninnar.

Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um ógildingu úrskurðar endurupptökunefndar 26. janúar 2016 um að hafna beiðni hans um endurupptöku hæstaréttarmálsins nr. 145/2014, sem dæmt var 12. febrúar 2015, þar sem hann var sakfelldur fyrir markaðsmisnotkun og hlutdeild í markaðsmisnotkun í tengslum við viðskipti með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. Er krafa hans annars vegar reist á því að einn nefndarmanna endurupptökunefndar hafi verið vanhæfur til að fara með málið vegna vinatengsla nefndarmannsins við eiginkonu eins dómenda í því máli sem krafist var endurupptöku á. Hins vegar er krafan á því reist að í úrskurði nefndarinnar hafi ranglega verið komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið leiddar verulegar líkur að því að sönnunargögn, sem færð voru fram í málinu, hafi verið rangt metin svo áhrif hafi haft á niðurstöðu þess. Vísar hann um þetta til c. og d. liða 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. nú c. og d. liði 1. mgr. 228. gr. laganna. Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði gagnaðila af kröfu leyfisbeiðanda og staðfesti Landsréttur þá niðurstöðu með framangreindum dómi. 

Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til þar sem ekki hafi verið tekin afstaða til allra röksemda hans um hvernig meta skyldi þau sönnunargögn sem lágu fyrir í hæstaréttarmálinu nr. 145/2014. Þá telur leyfisbeiðandi að málið hafi verulegt almennt gildi þar sem dómstólar hafi ekki tekið afstöðu til allra þeirra atriða er snúa að starfsemi endurupptökunefndar, valdheimildum hennar og úrskurðum. Brýnt sé að fá úrlausn Hæstaréttar um málið til að tryggja meiri vissu og fyrirsjáanleika við beitingu þeirra lagaákvæða sem snúa að meðferð mála hjá nefndinni. Jafnframt hafi málið almennt gildi um túlkun 6. gr. laga nr. 88/2008. Loks telur leyfisbeiðandi að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína.

Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Er beiðninni því hafnað.