Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-31

Houshang ehf. (Gísli Guðni Hall lögmaður)
gegn
Skattinum (Snorri Olsen ríkisskattstjóri)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Gjaldþrotaskipti
  • Fjárnám
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 11. mars 2024 leitar Houshang ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 2. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að kæra úrskurð Landsréttar 27. febrúar 2024 í máli nr. 66/2024: Houshang ehf. gegn Skattinum. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að felldur verði úr gildi úrskurður um að bú hans skuli tekið til gjaldþrotaskipta. Það var tekið til skipta á grundvelli árangurslausrar fjárnámsgerðar 17. ágúst 2023, sbr. 1. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Fjárnámsgerðin fór fram á lögheimili leyfisbeiðanda án boðunar en lögheimili fyrirsvarsmanns leyfisbeiðanda var dulið í þjóðskrá, sbr. 7. gr. laga nr. 80/2018 um lögheimili og aðsetur. Fjárnámið var til fullnustu kröfu sem 9. töluliður 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför tekur til.

4. Með úrskurði Landsréttar var staðfestur úrskurður héraðsdóms um að taka bú leyfisbeiðanda til gjaldþrotaskipta.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að málið hafi ótvírætt fordæmisgildi varðandi 62. gr. laga nr. 90/1989 þegar árangurslaust fjárnám fer fram án boðunar gerðarþola. Úrskurður Landsréttar stangist á við dómafordæmi Hæstaréttar. Þá hafi málið verulegt almennt gildi þar sem fjöldinn allur af gjaldþrotamálum séu sótt af gagnaðila á grundvelli árangurslauss fjárnáms.

6. Að virtum gögnum málsins má ætla að dómur í því geti haft fordæmisgildi um heimild til að ljúka fjárnámi sem árangurslausu þegar gerðarþoli hefur ekki verið boðaður til gerðarinnar. Beiðnin er því samþykkt.