Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-166

Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)
gegn
Gísla Rúnari Sævarssyni (Hilmar Gunnarsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Peningaþvætti
  • Sjálfsþvætti
  • Sakartæming
  • Lögskýring
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 11. júní 2021 leitar ákæruvaldið leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 4. sama mánaðar í málinu nr. 332/2020: Ákæruvaldið gegn Gísla Rúnari Sævarssyni á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákærði leggst gegn beiðninni.

3. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða fyrir brot gegn 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda. Í málinu var ákærða jafnframt gefið að sök brot gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa nýtt ávinning af fyrrgreindum brotum í þágu samlagsfélags sem var í eigu hans. Var héraðsdómur staðfestur um sýknu ákærða af þeim sakargiftum. Í dómi Landsréttar kom fram að þegar brot gegn 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga félli saman við frumbrot og ekkert lægi fyrir um viðbótarathafnir af hálfu ákærða yrði að telja að frumbrotið tæmdi tök gagnvart broti gegn 264. gr. laganna. Þar sem sú væri raunin í málinu yrði 1. mgr. 262. gr. laganna látin tæma sök gagnvart 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. Refsing ákærða var ákveðin fangelsi í eitt ár en fullnustu hennar frestað skilorðsbundið í þrjú ár. Þá var honum gert að greiða 84.797.000 krónur í sekt til ríkissjóðs að viðlagðri vararefsingu.

4. Leyfisbeiðandi telur að fullnægt sé skilyrðum 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis. Hann byggir á því að verulega almenna þýðingu hafi að fá úrlausn Hæstaréttar um túlkun 264. gr. almennra hegningarlaga og beitingu þess ákvæðis í málinu. Vísar hann til breytinga sem gerðar voru á ákvæðinu með 7. gr. laga nr. 149/2009 sem meðal annars gerði þvætti manns á ávinningi af eigin brotum refsinæmt. Í málinu reyni í fyrsta sinn á mörk frumbrota og eftirfarandi peningaþvættis og hvort frumbrot tæmi sök gagnvart peningaþvætti. Að mati leyfisbeiðanda sé dómur Landsréttar óskýr um hvenær og hvernig beita megi ákvæðunum saman og ekki unnt að styðjast við hann sem fordæmi. Þá þurfi að skýra hvaða áhrif þvætti manns af ávinningi af eigin brotum eigi að hafa á ákvörðun refsingar. Leyfisbeiðandi telur að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til.

5. Að virtum gögnum málsins verður að telja að úrlausn í málinu, meðal annars um beitingu 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga, myndi hafa verulega almenna þýðingu í skilningi 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Beiðnin er því samþykkt.