Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-165

A (Styrmir Gunnarsson lögmaður)
gegn
íslenska ríkinu (Ásta Sóllilja Sigurbjörnsdóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Líkamstjón
  • Kjarasamningur
  • Slysatrygging
  • Skaðabætur
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 21. desember 2022 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 2. sama mánaðar í máli nr. 687/2021: A gegn íslenska ríkinu. Gagnaðili telur vafa leika á því að fullnægt sé lagaskilyrðum til að verða við beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að viðurkennd verði greiðsluskylda gagnaðila vegna líkamstjóns sem leyfisbeiðandi varð fyrir í starfi sínu á spítala. Tjónið hafi komið til þegar maður sem hafi leitað á spítalann vegna andlegra veikinda hljóp eftir gangi spítalans í átt að leyfisbeiðanda og hrinti henni með þeim afleiðingum að hún féll við. Leyfisbeiðandi telur sig ekki hafa fengið tjón sitt bætt að fullu með greiðslum frá Sjúkratryggingum Íslands, bótanefnd samkvæmt lögum nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, og loks úr slysatryggingu samkvæmt nánar tilgreindum kjarasamningi við ríkissjóð. Leyfisbeiðandi byggir aðallega á því að hún eigi rétt til frekari bóta á grundvelli slysatryggingar samkvæmt ákvæði 7.1.6 í kjarasamningnum sem feli í sér hlutlæga ábyrgðarreglu sem taki til tjóns hennar. Til vara byggir hún á því að gagnaðili beri ábyrgð á tjóninu á grundvelli sakarreglunnar þar sem gagnaðila hafi sem vinnuveitanda hennar mistekist að tryggja öryggi hennar.

4. Héraðsdómur sýknaði gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda og vísaði til þess að orðalag áðurnefnds ákvæðis kjarasamningsins væri skýrt um að bótaréttur væri til staðar ef starfsmaður yrði fyrir líkams- eða munatjóni í starfi sínu við að sinna einstaklingi, þar með töldum einstaklingi sem að takmörkuðu eða engu leyti gæti borið ábyrgð á gerðum sínum og að markmið ákvæðisins gæti ekki hnekkt því. Þá var ekki fallist á að háttsemi öryggisvarða umræddan dag yrði metin saknæm eða að húsnæði spítalans hefði verið í andstöðu við ákvæði laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum þannig að saknæmt gæti talist. Í dómi Landsréttar var með vísan til málsatvika ekki talið að fullnægt hefði verið skilyrðum greinar 7.1.6 í kjarasamningi. Að því gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms var hann staðfestur um sýknu gagnaðila.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Í því sambandi vísar hún til þess að málið hafi fordæmisgildi um efnislegt inntak þeirrar verndar sem félagsmenn njóti samkvæmt kjarasamningi sínum um hlutlæga skaðabótaábyrgð vinnuveitanda síns vegna líkamstjóns sem þeir verða fyrir í starfi. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að málið varði mikilvæga hagsmuni sína. Loks byggir hún á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, einkum um sök gagnaðila sem fari í öllum aðalatriðum gegn skriflegum gögnum málsins. Auk þess hafi verið litið framhjá skýrum dómafordæmum.

6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.