Hæstiréttur íslands
Nr. 2020-126
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Fasteign
- Galli
- Matsgerð
- Skaðabætur
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Með beiðni 24. apríl 2020 leita Þorsteinn Magnússon og Þóra Sumarlína Jónsdóttir eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 27. mars 2020 í málinu nr. 471/2019: Þorsteinn Magnússon og Þóra Sumarlína Jónsdóttir gegn Vilhelmínu Sigríði Smáradóttur og Svanberg Guðleifssyni, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Vilhelmína Sigríður Smáradóttir og Svanberg Guðleifsson leggjast ekki gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um skaðabætur vegna galla á fasteign sem þau keyptu af leyfisbeiðendum 30. maí 2016. Töldu gagnaðilar að slíkir annmarkar hefðu verið á ástandi fasteignarinnar að um hefði verið að ræða verulegan galla í skilningi fasteignakaupalaga nr. 40/2002. Undir meðferð málsins var aflað bæði undir- og yfirmatsgerðar. Í héraðsdómi voru leyfisbeiðendur dæmdir til að greiða gagnaðilum skaðabætur vegna galla á fasteigninni að teknu tilliti til niðurstöðu dómkvadds manns. Í framangreindum dómi Landsréttar var meðal annars talið að frágangur rakavarnar fasteignarinnar hefði verið andstæður viðurkenndum vinnubrögðum og góðri venju þannig að um galla hefði verið að ræða í skilningi fasteignakaupalaga. Var leyfisbeiðendum gert að greiða gagnaðilum skaðabætur að álitum.
Leyfisbeiðendur telja að skilyrði 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis séu uppfyllt þar sem úrslit málsins hafi verulegt almennt fordæmisgildi um þær kröfur sem gera verður til frágangs fasteigna í tengslum við fasteignaviðskipti og um aðkomu byggingaryfirvalda í formi áfangaúttekta og ábyrgð byggingarstjóra. Þá telja leyfisbeiðendur að málið varði mikilvæga hagsmuni sína auk þess sem dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til og meðal annars í mótsögn við niðurstöðu matsmanna.
Að virtum gögnum málsins er ekki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi umfram það sem leitt verður af öðrum dómsúrlausnum né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Er beiðninni því hafnað.