Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-116

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
X (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Brot í nánu sambandi
  • Barnaverndarlagabrot
  • Líkamsárás
  • Dráttur á máli
  • Áfrýjunarkostnaður
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Skúli Magnússon.

2. Með beiðni 6. júní 2025 leitar X leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 10. apríl sama ár í máli nr. 867/2023: Ákæruvaldið gegn X. Dómurinn var birtur leyfisbeiðanda 10. maí 2025. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.

3. Leyfisbeiðandi var í málinu ákærður fyrir stórfelld brot í nánu sambandi gagnvart þáverandi sambýliskonu sinni, framin á árunum 2009 til 2020, svo og stórfelld brot í nánu sambandi gagnvart tveimur börnum þeirra framin á árunum 2015 til 2020. Voru brot hans gagnvart sambýliskonunni talin varða við 1., sbr. 2. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og gagnvart börnunum við 1. mgr. 218. gr. b sömu laga svo og 1. mgr. 98. gr. og 1., sbr. 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Þá var hann ákærður fyrir brot gegn lögum nr. 84/2018 um bann við tilteknum frammistöðubætandi efnum og lyfjum og fyrir líkamsárás samkvæmt 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga gagnvart öðrum brotaþola.

4. Með dómi héraðsdóms var leyfisbeiðandi sýknaður af þeirri háttsemi sem honum var gefin að sök fyrir tímabilið 2009 til 5. apríl 2016 en sakfelldur að hluta fyrir háttsemi sem lýst var eftir það tímamark. Þá var hann sakfelldur fyrir brot gegn lögum nr. 84/2018 og fyrir líkamsárás samkvæmt 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Var refsing leyfisbeiðanda ákveðin fangelsi í tvö ár. Einnig var honum gert að sæta upptöku á nánar tilgreindum efnum. Loks var honum meðal annars gert að greiða fyrrverandi sambýliskonu sinni 3.500.000 krónur í miskabætur. Landsréttur staðfesti dóm héraðsdóms um sakfellingu leyfisbeiðanda en taldi að vegna verulegra tafa á meðferð málsins sem leyfisbeiðanda yrði ekki kennt um væri rétt að skilorðsbinda refsingu hans að mestu. Var refsing hans ákveðin fangelsi í 18 mánuði en fullnustu 15 mánaða frestað skilorðsbundið í tvö ár. Þá var honum gert að sæta upptöku á nánar tilgreindum efnum. Loks var honum gert að greiða fyrrverandi sambýliskonu sinni 2.500.000 krónur í miskabætur.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur og í andstöðu við 1. mgr. 237. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Dómur héraðsdóms hafi verið mildaður verulega og brotaþola dæmdar umtalsvert lægri skaðabætur. Engu að síður hafi allur áfrýjunarkostnaður málsins verið lagður á hann í andstöðu við skýr og ótvíræð fyrirmæli 1. mgr. 237. gr. laganna.

6. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu leyfisbeiðanda og um önnur atriði að því leyti sem hún byggir á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar verður ekki endurskoðuð fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Hins vegar verður talið að úrlausn málsins, meðal annars um áfrýjunarkostnað, kunni að hafa verulega almenna þýðingu í skilningi 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.