Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-152

Steinþór Guðmundsson og Þuríður Einarsdóttir (Óskar Sigurðsson lögmaður)
gegn
Magnúsi G. Guðmundssyni (Ólafur Björnsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Eignarréttur
  • Samningur
  • Sameign
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 2. júní 2021 leita Steinþór Guðmundsson og Þuríður Einarsdóttir leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 7. maí sama ár í málinu nr. 152/2020: Steinþór Guðmundsson og Þuríður Einarsdóttir gegn Magnúsi G. Guðmundssyni og til réttargæslu íslenska ríkinu, Angelíku Guðmundsdóttur Wallmann og Árna Oddgeiri Guðmundssyni og gagnsök á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Ágreiningur aðila lýtur að eignarhaldi á mannvirkjum og ræktuðu landi á Oddgeirshólajörðum. Mannvirkin eru annars vegar á óskiptu landi jarðanna Oddgeirshóla I og III og hins vegar á landi Oddgeirshóla II. Leyfisbeiðendur eru eigendur Oddgeirshóla I og hluta Oddgeirshóla II en gagnaðili er eigandi Oddgeirshóla III og IV og hluta Oddgeirshóla II.

4. Í dómi Landsréttar var talið að mannvirkin og hið ræktaða land væru í óskiptri sameign leyfisbeiðenda og gagnaðila að jöfnu. Landsréttur hafnaði því að eignaskiptasamningur 31. desember 1943, þar sem fram kom að allar eignir sem þá voru til staðar og síðar yrðu til skiptust að jöfnu milli Guðmundar, föður leyfisbeiðanda Steinþórs og gagnaðila, og bræðra hans, væri ógildur og taldi ekki annað ráðið af orðalagi hans en að öll hús sem á landinu væri að finna, bústofn og aðrar eignir sem tilheyrðu búrekstri á landinu skyldu vera í óskiptri sameign.

5. Leyfisbeiðendur byggja á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að því er varðar beitingu réttarreglna um eignarheimildir. Að mati leyfisbeiðenda hafi Landsréttur ekki lagt rétt mat á fyrirliggjandi þinglýst og óþinglýst skjöl að baki eignarrétti að fyrrnefndum mannvirkjum. Andstætt niðurstöðu Landsréttar bendi allar þinglýstar heimildir til þess að mannvirkin séu alfarið í þeirra eigu. Auk þess telja leyfisbeiðendur að Landsréttur hafi lagt rangt mat á málsástæður þeirra hvað varðar meginreglur eignarréttar um traustfang og grandleysi. Þá byggja leyfisbeiðendur á því að úrlausn um framangreind álitaefni séu fordæmisgefandi um meðal annars þýðingu félagsbúskapar við túlkun fyrirliggjandi eignarheimilda. Loks varði sakarefni málsins sérstaklega mikilvæga fjárhagslega hagsmuni þeirra.

6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðenda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.