Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-183

A (Þorbjörg I. Jónsdóttir lögmaður)
gegn
B (Björn Jóhannesson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Börn
  • Lögheimili
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 5. júlí 2021 leitar A leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 11. júní sama ár í málinu nr. 572/2020: A gegn B á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að ágreiningi um lögheimili dóttur aðila en samkomulag er milli þeirra um að fara sameiginlega með forsjá hennar og um jafna umgengni. Héraðsdómur tók til greina kröfu gagnaðila um að lögheimili stúlkunnar skyldi vera hjá honum og staðfesti Landsréttur þá niðurstöðu.

4. Leyfisbeiðandi byggir á því að málið hafi verulegt almennt gildi. Hún vísar til þess að Landsréttur hafi virt að vettugi vilja barnsins til að lögheimili þess yrði hjá henni auk þess sem ekki hafi verið tekið nægilega mikið tillit til tálmunar af hálfu gagnaðila og brota á dómsátt frá árinu 2016. Þá hafi málið verulegt almennt gildi um mat á hvað barni sé fyrir bestu. Loks telur leyfisbeiðandi að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína og að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi og efni.

5. Að virtum gögnum málsins verður hvorki séð að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.