Hæstiréttur íslands
Nr. 2021-279
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Líkamstjón
- Umferðarslys
- Slysatrygging ökumanns
- Sönnun
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.
2. Með beiðni 9. nóvember 2021 leitar A leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 15. október sama ár í máli nr. 458/2020: Vátryggingafélag Íslands hf. gegn A á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um viðurkenningu á skyldu gagnaðila til greiðslu bóta úr lögbundinni slysatryggingu ökumanns vegna líkamstjóns sem hann kveðst hafa orðið fyrir við fall af bifhjóli. Með dómi héraðsdóms var fallist á fyrrnefnda kröfu en með dómi Landsréttar var þeirri niðurstöðu snúið við. Landsréttur vísaði til þess að leyfisbeiðandi hefði í þrígang lýst atvikinu fyrir starfsfólki á bráðadeild Landspítala og aldrei nefnt að um umferðarslys hefði verið að ræða. Þremur mánuðum eftir slysdag hefði eigandi bifhjólsins ritað tjónstilkynningu til gagnaðila og krafist greiðslu úr kaskótryggingu bifhjólsins vegna skemmda á því. Gegn mótmælum gagnaðila hefði greiðsla bóta úr þeirri tryggingu takmarkaða þýðingu um sönnun á tjóni leyfisbeiðanda. Þegar litið væri til upphaflegrar lýsingar leyfisbeiðanda á ástæðum þess að hann slasaðist og þeirra takmörkuðu sönnunargagna er fyrir lægju að öðru leyti, sbr. og 59. gr. laga nr. 91/1991, hefði honum ekki, gegn mótmælum gagnaðila, tekist sönnun á staðhæfingu sinni um að líkamstjón hans mætti rekja til falls af bifhjólinu.
4. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi og varði mikilvæga hagsmuni sína. Þá sé dómur Landsréttar rangur að efni til og í ósamræmi við meginreglur um sönnun þar sem í dóminum hafi verið gerðar sambærilegar kröfur um sönnun og í sakamálum. Dómurinn hafi byggt á röngum forsendum og á málsástæðu sem hafi verið of seint fram komin um að greiðsla úr kaskótryggingu hafi takmarkaða þýðingu við sönnun um slys leyfisbeiðanda. Loks skipti máli að leyfisbeiðandi hafi leiðrétt upphaflega lýsingu sína á tjónsatviki einni viku eftir slysdag og að áverkinn sem hann hlaut hafi verið dæmigerður fyrir bifhjólaslys.
5. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess geti haft verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður hvorki séð að málsmeðferð fyrir Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant né að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.