Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-70
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Eignarréttur
- Hefð
- Fasteign
- Erfðaábúð
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Karl Axelsson.
2. Með beiðni 5. maí 2022 leitar María G. Blómkvist Andrésdóttir leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 8. apríl 2022 í máli nr. 579/2020: María G. Blómkvist Andrésdóttir gegn Sigurði O. Kjartanssyni, Helgu Sólveigu Jóhannesdóttur og Þuríði Guðjónsdóttur á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um viðurkenningu á eignarrétti hennar að fasteigninni Miðfelli III. Leyfisbeiðandi rekur ætlaðan eignarrétt sinn til móður sinnar sem seldi henni eignina eftir að henni var afsöluð eignin úr dánarbúi föður leyfisbeiðanda.
4. Með dómi Landsréttar var staðfestur héraðsdómur með vísan til forsendna hans um að sýkna gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda. Í héraðsdómi var vísað til þess að líta yrði til erfðaábúðarsamnings frá árinu 1950 milli föður leyfisbeiðanda og þáverandi eiganda fasteignarinnar en gagnaðilar tóku arf eftir hann. Samkvæmt efni samningsins væri um að ræða byggingarbéf er mælti fyrir um leigugjald og greiðslu þess. Ekki var talið unnt að skýra samninginn á þann veg að um væri að ræða yfirfærslu eignarréttar þannig að samningurinn hefði í raun falið í sér afsal. Þá var ekki fallist á að eignarréttur hefði síðar flust til föður leyfisbeiðanda. Loks var ekki fallist á að leyfisbeiðandi eða þeir sem hún leiddi rétt sinn frá hefðu öðlast eignaryfirráð á landinu fyrir hefð. Vísað var til þess að umráð föður leyfisbeiðanda byggðu á framangreindum samningi og erfðaábúð og umráð móður leyfisbeiðanda á erfðaábúð eftir hans dag sem væri í eðli sínu leiga í skilningi 3. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð. Í dómi Landsréttar kom jafnframt fram að leyfisbeiðandi hefði ekki farið með umráð fasteignarinnar í fullan hefðartíma samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi en Hæstiréttur hafi í nokkrum sambærilegum málum komist að annarri niðurstöðu en gert var í hinum áfrýjaða dómi. Þá sé eignarréttur byggður á hefð mjög algengur og einnig hafi málið þýðingu fyrir venju um sameiginleg afnot landsvæða. Að auki byggir leyfisbeiðandi á því að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína. Loks vísar leyfisbeiðandi til þess að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi og efni. Þannig hafi ekki verið tekið tillit til fordæma Hæstaréttar um hefð og ákvæði laga nr. 46/1905 túlkuð með röngum hætti. Í dómi Landsréttar hafi margar af mikilvægustu málsástæðum leyfisbeiðanda ekki fengið neina umfjöllun auk þess sem niðurstaðan virðist byggð á annarri forsendu en héraðsdómur án þess að það sé rökstutt frekar.
6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess geti haft verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.