Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-143

SL1 ehf. (Einar Páll Tamimi lögmaður)
gegn
RA 5 ehf. (Pétur Már Jónsson)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Húsaleigusamningur
  • Sönnunarbyrði
  • Sönnun
  • Skaðabótakrafa
  • Afsláttur
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 18. nóvember 2022 leitar SL1 ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 21. október 2022 í máli nr. 516/2021: SL1 ehf. gegn RA 5 ehf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um greiðslu vegna leigu leyfisbeiðanda á verslunarhúsnæði við Garðatorg 4 í Garðabæ.

4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að fallast á kröfu gagnaðila og var leyfisbeiðanda gert að greiða honum nánar tilgreinda fjárhæð ásamt vöxtum, að frádreginni tilgreindri fjárhæð sem greidd hafði verið inn á kröfuna. Leyfisbeiðandi byggði á því að komið hefði í ljós við þingfestingu málsins í héraði að hið leigða húsnæði hefði verið umtalsvert minna en tilgreint hefði verið í leigusamningi og ætti hann því rétt á afslætti af umsaminni leigu sem næmi hærri fjárhæð en krafa gagnaðila. Í dómi Landsréttar var leyfisbeiðandi látinn bera hallann af sönnunarskorti um að hið leigða húsnæði hefði í reynd verið minna en það sem tilgreint var í leigusamningi aðila og var kröfu hans um afslátt af leigufjárhæðinni því hafnað. Þá var kröfu leyfisbeiðanda um greiðslu skaðabóta hafnað þegar af þeirri ástæðu að hann hefði engin gögn lagt fram í málinu sem renndu stoðum undir að hann hefði orðið fyrir tjóni vegna riftunar gagnaðila á leigusamningnum. Landsréttur féllst ekki á að það gæti haft þýðingu í málinu að í stefnu væri krafist greiðslu húsaleigu fyrir tímabilið eftir riftun leigusamningsins þar sem nægilega ljóst væri að krafa gagnaðila byggðist á því að hann ætti rétt á greiðslu bóta eftir riftun leigusamningsins sem tæki mið af fjárhæð umsaminnar leigu, sbr. seinni málslið 1. mgr. 62. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994. Landsréttur taldi ekki koma að sök þótt ekki hefði verið fjallað sérstaklega um skaðabætur í stefnu, enda yrði ekki séð að vörnum leyfisbeiðanda hefði orðið áfátt af þessum sökum. Þá var leyfisbeiðandi ekki talinn hafa lagt fram nein gögn sem renndu stoðum undir að hann hefði innt af hendi frekari greiðslur en tilgreindar voru til frádráttar af hálfu gagnaðila né að dráttarvaxtakrafa gagnaðila væri haldin annmörkum.

5. Leyfisbeiðandi byggir í fyrsta lagi á því að málsmeðferð fyrir Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant þar sem Landsréttur hafi brotið gegn ótvíræðri og ófrávíkjanlegri sönnunarreglu 3. mgr. 71. gr. laga nr. 91/1991 og dómaframkvæmd um ákvæðið. Þetta felist í því að rétturinn hafnaði afsláttarkröfu leyfisbeiðanda á þeim grundvelli að óljós væri raunverulegur fermetrafjöldi hins leigða þótt leyfisbeiðandi hefði lagt fram opinber gögn sem sýndu að sá eignarhluti sem hann leigði samkvæmt leigusamningi og sem uppdráttur var af í honum væri 20% minni en sú fermetratala sem tilgreind var í samningnum. Í öðru lagi byggir leyfisbeiðandi á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Vísar leyfisbeiðandi einkum til þeirrar niðurstöðu Landsréttar að ekki var talið hafa þýðingu í málinu þótt krafist væri húsaleiguskuldar fyrir tímabilið eftir riftun leigusamningsins og ekki yrði talið koma að sök þótt ekki væri sérstaklega fjallað um skaðabætur í stefnu enda yrði ekki séð að vörnum leyfisbeiðanda hafi verið áfátt af þessum sökum. Þá hefði Landsréttur dæmt leyfisbeiðanda til að greiða dráttarvexti frá riftunardegi en ekki skaðabótavexti af því sem gagnaðili teldi vera skaðabótakröfu. Loks hefði ekki verið tekið tillit til allra greiðslna leyfisbeiðanda og að dráttarvaxtakrafa gagnaðila fái ekki staðist.

6. Að virtum gögnum málsins er ekki unnt að líta svo á að málsmeðferð fyrir Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant eða að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Beiðninni er því hafnað.