Hæstiréttur íslands

Nr. 2019-351

Sýn hf. (Kristinn Hallgrímsson lögmaður)
gegn
Símanum hf. (Halldór Brynjar Halldórsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Samkeppni
  • Fjarskipti
  • Skaðabætur
  • Matsgerð
  • Sönnun
  • Tjón
  • Gagnsök
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Með beiðni 6. desember 2019 leitar Sýn hf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 8. nóvember sama ár í málinu nr. 919/2018: Sýn hf. gegn Símanum hf. og gagnsök, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Síminn hf. leggst gegn beiðninni.

Með ákvörðun Samkeppniseftirlitsins 3. apríl 2012 í máli nr. 7/2012 var komist að þeirri niðurstöðu að gagnaðili hefði brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 og 54. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, með verðþrýstingi á farsímamarkaði frá 1. maí 2001 til ársloka 2007 og honum gert að greiða 390.000.000 krónur í stjórnvaldssekt. Með úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála 22. ágúst 2012 í máli nr. 1/2012 var fyrrnefnd ákvörðun staðfest. Gagnaðili höfðaði dómsmál á hendur Samkeppniseftirlitinu vegna framangreindra úrlausna en málið var fellt niður í tengslum við heildarsátt milli gagnaðila og eftirlitsins, sbr. ákvörðun Samkeppniseftirlitsins 26. mars 2013 í máli nr. 6/2013. Í sáttinni kom meðal annars fram að fyrrnefndur úrskurður áfrýjunarnefndarinnar fæli í sér endanlegar lyktir málsins og yrði ekki skotið til dómstóla. Í kjölfarið höfðaði leyfisbeiðandi mál þetta á hendur gagnaðila aðallega til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 912.935.301 króna vegna tjóns sem hann kveðst hafa orðið fyrir vegna verðþrýstings gagnaðila. Til vara krafðist leyfisbeiðandi að bætur yrðu dæmdar að álitum. Gagnaðili höfðaði gagnsök í málinu og krafðist skaðabóta að fjárhæð 2.491.822.443 krónur og byggði á því að ef fallist yrði á málatilbúnað leyfisbeiðanda ætti gagnaðili kröfu á hendur leyfisbeiðanda vegna verðþrýstings hins síðarnefnda. Undir rekstri málsins öfluðu báðir aðilar matsgerðar dómkvaddra matsmanna. Þá var leitað eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins um fjórar tilgreindar spurningar, sbr. álit dómsins 30. maí 2018 í máli E-6/17. Fyrir Landsrétti óskaði leyfisbeiðandi þess að fá að nýju dómkvadda matsmenn til að meta tjón sitt vegna háttsemi gagnaðila „miðað við þá aðferð sem matsmenn [teldu] heppilegast að nota í umræddu tilviki.“ Með ákvörðun Landsréttar 17. maí 2019 var beiðninni hafnað með vísan til þess að matsgerðinni væri í reynd ætlað að undirbyggja málsástæður sem ekki hefðu verið hafðar uppi í málinu. Yrði því ekki annað séð en að hún væri tilgangslaus til sönnunar.

Með dómi héraðsdóms var gagnaðili sýknaður af kröfum leyfisbeiðanda á þeim grunni að tjón væri ósannað. Þá var leyfisbeiðandi sýknaður af kröfum gagnaðila þegar af þeirri ástæðu að sá síðarnefndi var ekki talinn hafa sýnt fram á ólögmæta háttsemi leyfisbeiðanda í formi misnotkunar á markaðsráðandi stöðu. Landsréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um sýknu beggja aðila en á þeim grunni að tjón væri í báðum tilfellum ósannað. Var einkum vísað til þess að leyfisbeiðandi teldi sig hafa orðið fyrir tjóni sem næmi muninum á þeim lúkningargjöldum sem hann greiddi gagnaðila og 75% af smásöluverði gagnaðila en síðarnefndu stærðina teldi hann endurspegla „eðlilegt“ lúkningargjald. Þá væri krafa leyfisbeiðanda studd við matsgerð dómkvaddra manna þar sem ofgreiðsla hans var reiknuð út samkvæmt framangreindri aðferð. Dómurinn benti á að munur væri á „eðlilegu verði“ á fjarskiptamarkaði annars vegar og tjóni aðila af völdum samkeppnislagabrots hins vegar. Talið var að leyfisbeiðandi hefði að takmörkuðu leyti rökstutt hvernig framangreind aðferð endurspeglaði rauntjón hans af háttsemi gagnaðila. Þá væri í matsgerð sömu matsmanna í gagnsök sérstaklega tekið fram, að þótt framangreind aðferð væri oft notuð til að meta við hvaða verð ætti að miða í útreikningum á tapi sem hljótist af broti á samkeppnislögum, væri aðferðin ein og sér ekki heppileg til að meta tapið sjálft. Var því talið að sú matsgerð sem leyfisbeiðandi reisti aðalkröfu sína á færði ekki sönnur á það tjón sem hann teldi sig hafa orðið fyrir vegna háttsemi gagnaðila. Hið sama var talið eiga við um aðalkröfu gagnaðila í gagnsök enda væri hún reist á sömu aðferð og krafa leyfisbeiðanda. Þá var ekki talið að nokkuð haldbært lægi fyrir í málinu sem unnt væri að reisa ákvörðun um bætur að álitum á.

Leyfisbeiðandi byggir á að úrslit málsins hafi verulega almenna þýðingu í fyrsta lagi þar sem taka þurfi afstöðu til þess hvort niðurstaða Landsréttar um að hafna matsbeiðni leyfisbeiðanda hafi verið rétt. Telur leyfisbeiðandi það leiða af 112. gr. laga nr. 91/1991 að matsbeiðni verði eingöngu hafnað með úrskurði en ekki ákvörðun, enda eigi 1. mgr. 164. gr. laganna ekki við. Í öðru lagi sé nauðsynlegt að skera úr um hvort fyrrnefnd niðurstaða Landsréttar hafi brotið gegn meginreglu einkamálaréttarfars um frjálsa sönnunarfærslu. Í þriðja lagi hafi niðurstaðan verið ranglega byggð á ummælum matsmanna, um það hvort tiltekin aðferð væri heppileg við mat á tjóni, sem hafi verið tekin úr samhengi við aðrar forsendur þeirra og málatilbúnað leyfisbeiðanda. Í fjórða lagi hafi Landsréttur ekki vikið að því hvort leyfisbeiðanda hafi verið heimilt að byggja bótakröfu sína sjálfstætt á ákvæðum 54. gr. EES-samningsins og hvort meginregla um skilvirkni leiddi til þess að unnt væri að dæma bætur að álitum. Í þessu sambandi verði einnig að meta hvort Landsrétti hefði á grundvelli trúnaðarskyldu 3. gr. EES-samningsins borið að taka til sjálfstæðrar skoðunar þýðingu hins ráðgefandi álits í málinu í stað þess að vísa eingöngu til þess að frá því hefði verið greint í héraðsdómi. Loks varði málið sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda.

Að virtum gögnum málsins og málatilbúnaði er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi umfram dómsúrlausnir sem áður hafa gengið né að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Er beiðninni því hafnað.