Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-102
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Dómkvaðning matsmanns
- Málshraði
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 22. maí 2025 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að kæra úrskurð Landsréttar 12. sama mánaðar í máli nr. 240/2025: A gegn Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Málið á rætur að rekja til umferðarslyss sem leyfisbeiðandi varð fyrir. Hún höfðaði mál á hendur gagnaðila og ökumanni þeirrar bifreiðar sem hún lenti í árekstri við og krafðist viðurkenningar á skaðabótaskyldu vegna varanlegrar örorku. Einnig krafðist hún miskabóta samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 fyrir ólögmæta meingerð sem gagnaðili hefði valdið henni með notkun svokallaðrar PC-Crash-skýrslu. Leyfisbeiðandi féll síðar frá kröfu um greiðslu slíkra miskabóta í því máli og höfðaði í kjölfarið mál þetta. Krefst hún miskabóta á grundvelli fyrrgreinds ákvæðis skaðabótalaga úr hendi gagnaðila.
4. Með úrskurði Landsréttar var staðfestur úrskurður héraðsdóms um að hafna beiðni leyfisbeiðanda um dómkvaðningu matsmanns. Þar kom fram að matsgerð sem aflað var vegna fyrra málsins lægi fyrir í málinu. Landsréttur tók fram að leyfisbeiðandi leitaðist eftir því með fyrstu til fjórðu spurningu í matsbeiðni að meta sömu atriði og áður hefðu verið metin í þeirri matsgerð. Ekki yrði séð af gögnum málsins hvort og þá að hvaða marki leyfisbeiðandi teldi nauðsyn á að þessi atriði yrðu metin að nýju. Þá væri í matsbeiðni ekki heldur gerð frekari grein fyrir hvað ætti að sanna með matinu að þessu leyti. Taldi Landsréttur því að matsbeiðnin væri að þessu leyti bersýnilega tilgangslaus til sönnunar, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Varðandi fimmtu til áttundu matsspurningu tók Landsréttur fram að leyfisbeiðandi hefði fyrst óskað mats um þessi atriði meira en 13 mánuðum eftir að málið var þingfest og eftir að héraðsdómari hafði ákveðið tímasetningu aðalmeðferðar. Þar sem ekkert væri fram komið í málinu sem gæti réttlætt þennan drátt var kröfu leyfisbeiðanda að því er varðaði þær matsspurningar jafnframt hafnað.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að hinn kærði úrskurður sé rangur að efni og formi. Þá varði kæruefnið mikilvæga almenningshagsmuni, réttláta málsmeðferð og hafi grundvallarþýðingu fyrir rekstur málsins í héraði. Leyfisbeiðandi vísar meðal annars til þess að í úrskurði Landsréttar hafi ekki verið tekin afstaða til þeirrar málsástæðu, að þar sem henni sé ekki heimilt að leiða matsmanninn fyrir dóm í því máli sem hér er til meðferðar, hafi fyrirliggjandi matsgerð takmarkað sönnunargildi. Því sé leyfisbeiðanda brýn þörf á að fá dómkvaddan matsmann til að svara þeim matsspurningum sem þegar hafi verið svarað í fyrirliggjandi matsgerð. Loks byggir leyfisbeiðandi á því að úrlausn málsins geti haft verulegt almennt gildi þar sem hún gæti verið til skýringar á sönnunargildi PC-Crash skýrslna.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að úrlausn um kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni, geti haft fordæmisgildi eða grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar sömu málsgreinar á grundvelli þess að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni. Beiðni um kæruleyfi er því hafnað.