Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-160
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Stjórnarskrá
- Friðhelgi eignarréttar
- Eignarnám
- Kvöð
- Raforka
- Ógilding
- Meðalhóf
- Rannsóknarregla
- Andmælaréttur
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Sigurður Tómas Magnússon og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 19. nóvember 2025 leita Reykjaprent ehf., Sigríður S. Jónsdóttir, Jón Gestur Ólafsson, Freygerður Anna Ólafsdóttir og Edda Rún Ólafsdóttir leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 23. október sama ár í máli nr. 237/2025: Reykjaprent ehf., Sigríður S. Jónsdóttir, Jón Gestur Ólafsson, Freygerður Anna Ólafsdóttir og Edda Rún Ólafsdóttir gegn Landsneti hf. og íslenska ríkinu. Gagnaðili Landsnet hf. leggst gegn beiðninni. Gagnaðili íslenska ríkið leggst ekki gegn beiðninni en leggur í mat Hæstaréttar hvort fyrir hendi séu lagaskilyrði til að veita áfrýjunarleyfi.
3. Málið lýtur að kröfu leyfisbeiðenda um að ógilt verði ákvörðun umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra 21. júní 2024 um annars vegar heimild gagnaðila Landsnets hf. til að framkvæma eignarnám til ótímabundinna afnota vegna lagningar Suðurnesjalínu 2, 220 kV háspennulínu, á landi leyfisbeiðenda, og hins vegar um að í því skyni verði nánar tiltekinni kvöð þinglýst á jörðina. Með héraðsdómi voru gagnaðilar sýknaðir af kröfu leyfisbeiðenda, einkum með vísan til þess að ákvörðun ráðherra hefði ekki verið haldin annmörkum sem leitt gætu til ógildingar hennar. Með dómi Landsréttar var niðurstaða héraðsdóms staðfest.
4. Leyfisbeiðendur byggja á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Réttaróvissa sé fyrir hendi um túlkun grundvallarákvæða íslenskrar stjórnskipunar um eignarrétt og eignarnám og samspil þeirra við umhverfis- og skipulagslöggjöf í ljósi lögbundinna sjónarmiða um meðalhóf. Málið hafi ríkt fordæmisgildi um þær kröfur sem gera verði til ákvarðana um eignarnám. Deilt sé um hvort sjónarmið í þingsályktun, sem hafi borið að endurskoða árið 2019, geti réttlætt val á kosti sem hafi í för með sér umfangsmeira og meira íþyngjandi eignarnám en nauðsyn standi til. Þá sé mikilvægt að Hæstiréttur skeri úr um valdheimildir framkvæmdaraðila til að velja framkvæmdakosti og hvort það vald sé óháð sjónarmiðum um umhverfisvernd og vernd eignarréttar. Úrlausn málsins hafi auk þess fordæmisgildi um samspil rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar og ákvarðanatöku um eignarnám. Loks varði málið sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðenda enda um að ræða eignarréttindi þeirra.
5. Að virtum gögnum málsins verður talið að úrslit þess kunni að hafa verulegt almennt gildi í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.