Hæstiréttur íslands
Nr. 2020-10
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Sjómaður
- Veikindalaun
- Verkfall
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Helgi I. Jónsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Með beiðni 2. janúar 2020 leitar Ólafur Bjarni Stefánsson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 6. desember 2019 í máli nr. 932/2018: Ólafur Bjarni Stefánsson gegn Brimi hf., á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Brim hf. leggst gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda á hendur gagnaðila um greiðslu veikindalauna á nánar tilgreindu tímabili en leyfisbeiðandi var matsveinn á fiskiskipi sem gagnaðili gerir út. Snýr ágreiningur aðila að því hvernig skýra beri 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 og hvort miða eigi rétt leyfisbeiðanda til fjögurra mánaða veikindalauna við upphaf óvinnufærni hans svo sem gagnaðili heldur fram eða þegar skipinu var á ný haldið til veiða að verkfalli loknu en á því er byggt af hálfu leyfisbeiðanda. Héraðsdómur taldi að miða bæri réttinn við upphaf óvinnufærni leyfisbeiðanda og sýknaði gagnaðila af kröfu hans. Landsréttur staðfesti þá niðurstöðu með fyrrnefndum dómi.
Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til því þar hafi verið lagt til grundvallar að upphafstími veikindalauna sjómanns samkvæmt 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga sé við upphaf óvinnufærni hans en ekki þegar hann skuli hefja störf að nýju. Sé sú niðurstaða í andstöðu við dóm Hæstaréttar 1992, bls. 1002. Þá telur leyfisbeiðandi að dómur Hæstaréttar 1996, bls. 3309, sem Landsréttur vísar til niðurstöðu sinni til stuðnings, geti ekki haft fordæmisgildi í málinu þar sem legið hafi fyrir í því máli hvenær skipverjinn átti að fara í næstu veiðiferð ólíkt því sem er í þessu máli. Jafnframt vísar leyfisbeiðandi til þess að Landsréttur hafi ranglega lagt til grundvallar að skipverji sem er í svokölluðum frítúr sé ekki í launalausu leyfi í skilningi 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga en sú niðurstaða sé ekki í samræmi við dómframkvæmd Hæstaréttar. Telur leyfisbeiðandi að málið geti haft fordæmisgildi um skýringu fyrrgreinds lagaákvæðis auk þess sem málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína.
Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðenda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður hvorki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi til né efni. Er beiðninni því hafnað.