Hæstiréttur íslands
Nr. 2024-144
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Verksamningur
- Þjónustukaup
- Skaðabætur
- Galli
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 12. nóvember 2024 leitar Ægisgata 5, húsfélag, leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 17. október sama ár í máli nr. 358/2023: Ægisgata 5, húsfélag gegn Múr- og málningarþjónustunni Höfn ehf. og gagnsök. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Ágreiningur aðila lýtur að kröfu gagnaðila um greiðslu 13.919.346 króna auk vaxta vegna eftirstöðva endurgjalds samkvæmt verksamningi málsaðila. Leyfisbeiðandi stöðvaði greiðslur til gagnaðila vegna tjóns sem hann telur sig hafa orðið fyrir og nemi hærri fjárhæð en krafa gagnaðila.
4. Með dómi Landsréttar var komist að þeirri niðurstöðu að leyfisbeiðandi hefði meinað gagnaðila að neyta úrbótaréttar síns án réttmætra ástæðna. Leyfisbeiðanda hefði ekki verið stætt á að krefja gagnaðila um greiðslu kostnaðar af því að fá annan aðila til að gera úrbæturnar og skuldajafna þeirri kröfu við stefnufjárhæð. Með vísan til þeirra galla sem staðreyndir voru á verkinu með matsgerð dómkvadds manns var hins vegar ekki fallist á að gagnaðili gæti krafist fullrar greiðslu í samræmi við verksamning aðila. Með vísan til matsgerðar var kostnaður gagnaðila metinn að álitum 5.000.000 krónur. Þá var einnig talið að gagnaðili hefði glatað kröfu um greiðslu að fjárhæð 2.310.000 krónur vegna tilgreinds verkliðar á grundvelli tómlætis. Leyfisbeiðandi var því dæmdur til að greiða gagnaðila þá fjárhæð sem eftir stóð, 6.609.346 krónur, ásamt dráttarvöxtum. Gagnaðila var gert að greiða leyfisbeiðanda málskostnað vegna öflunar matsgerðar.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur í málinu hafi verulegt almennt gildi á sviði neytendaverndar meðal annars um vanefndarúrræði neytenda samkvæmt lögum nr. 42/2000 um þjónustukaup og þá sérstaklega um túlkun úrbótaréttar neytenda samkvæmt 16. gr. laganna. Þá byggir leyfisbeiðandi jafnframt á því að úrslit málsins varði verulega hagsmuni sína. Ef niðurstaða Landsréttar standi muni leyfisbeiðandi hafa greitt fullt samningsverð fyrir framkvæmd sem dæmd hafi verið ónýt af dómkvöddum manni, auk þess að greiða úrbótakostnað vegna galla á framkvæmdinni. Að lokum telur leyfisbeiðandi að sú niðurstaða Landsréttar að hann hafi meinað gagnaðila að neyta úrbótaréttar síns án þess að réttmætar ástæður hafi verið til þess sé bersýnilega röng. Landsréttur líti ekki til þess að gagnaðili hafi brotið ákvæði samningsins um tilhögun undirverktöku og að gagnaðili, sem sé einn skráður verktaki í verkinu, hafi ekki sjálfur látið hina umsömdu þjónustu í té heldur þriðji aðili sem leyfisbeiðandi hafi ekki verið í samningssambandi við. Landsréttur hafi talið að þriðji aðili hafi mátt framkvæma úrbætur í nafni gagnaðila eftir að dómkvaddur maður hafi metið verkið stórlega gallað.
6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki talið að fullnægt sé þeim skilyrðum 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi ákvæðisins. Þá verður ekki talið að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.