Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-179
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Þvingunaraðgerðir
- Frysting fjármuna
- Eignarréttur
- Alþjóðasamningar
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.
2. Með beiðni 9. desember 2025 leitar Ivan Nicolai Kaufmann leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja beint til Hæstaréttar dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 25. nóvember sama ár í máli nr. E-5164/2025: Ivan Nicolai Kaufmann gegn íslenska ríkinu. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Ágreiningur aðila lýtur að ákvörðun gagnaðila um að synja leyfisbeiðanda um að taka sæti í stjórn Vélfags ehf. Ákvörðun gagnaðila var byggð á c-lið skilyrða sem hann hafði sett fyrir því að veita Vélfagi ehf. undanþágu frá ákvörðun Arion banka hf. um að frysta eignir félagsins á grundvelli 10. gr. laga nr. 68/2023 um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða og frystingu fjármuna. Rökstuðningur bankans fyrir þeirri ákvörðun er sagður hafa lotið að grunsemdum um að félagið Norebo JSC væri raunverulegur eigandi Vélfags ehf.
4. Með dómi héraðsdóms var hafnað kröfu leyfisbeiðanda um að ógilda ákvörðun gagnaðila um að synja honum um að taka sæti í stjórn Vélfags ehf. eftir að bankinn frysti fjármuni félagsins á grundvelli laga nr. 68/2023. Gagnaðili hafði á grundvelli 9. gr. laganna veitt Vélfagi ehf. undanþágu frá þvingunaraðgerðum með tilteknum skilyrðum sem höfðu meðal annars það markmið að tryggja að Norebo JSC, sem er skráð á alþjóðlegan þvingunarlista, og aðilar sem tengjast því félagi gætu ekki haft áhrif á ákvarðanir eða aðgerðir Vélfags ehf. Fallist var á það með gagnaðila að leyfisbeiðandi hefði ekki sýnt fram á að seta hans í stjórn Vélfags ehf. samræmdist því markmiði sem skilyrðum undanþágu félagsins væri ætlað að tryggja. Var í því efni vísað til þess að leyfisbeiðandi hefði ekki sýnt fram á að raunveruleg eigna- og stjórnunartengsl aðila sem tengd hafi verið Norebo JSC hefðu verið rofin með kaupum leyfisbeiðanda á Titania Trading Ltd. og heldur ekki að hann sjálfur hefði gert fullnægjandi grein fyrir tengslum sínum við Norebo JSC og tengda aðila. Þá var ekki fallist á með leyfisbeiðanda að brotið hefði verið gegn meðalhófsreglu stjórnskipunarréttar, 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eða málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttar.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að niðurstaða í málinu hafi mikið fordæmisgildi einkum um beitingu 9. og 10. gr. laga nr. 68/2023 og valdmörk utanríkisráðuneytis og fjármálastofnunar eftir sömu lögum. Jafnframt reyni á mörk stjórnsýsluvalds ráðherra við setningu skilyrða fyrir undanþágu frá þvingunaraðgerð. Þá varði málið inngrip í atvinnufrelsi og eignarrétt leyfisbeiðanda sem og álitamál um mismunun á grundvelli þjóðernis í andstöðu við EES-samninginn. Þar að auki hafi málið verulega samfélagslega þýðingu einkum þar sem það varði íþyngjandi aðgerðir gegn íslensku einkahlutafélagi, rekstrarhæfi þess og hvaða kröfur séu gerðar um sönnunarfærslu eftir lögum nr. 68/2023. Að endingu vísar leyfisbeiðandi til þess að öll skilyrði 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 séu uppfyllt og engin þörf á vitnaleiðslu eða sérfræðikunnáttu í málinu.
6. Með ákvörðun nr. 2025-171 hinn 9. þessa mánaðar samþykkti Hæstiréttur að veita Vélfagi ehf. leyfi til að áfrýja beint til réttarins dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 25. nóvember 2025 í máli nr. E-5581/2025, en það mál á einnig rætur að rekja til ákvörðunar Arion banka hf. um að frysta fjármuni félagsins á grundvelli laga nr. 68/2023.
7. Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í því geti haft almenna þýðingu fyrir beitingu réttarreglna auk þess sem úrslit þess kunna að hafa verulega samfélagslega þýðingu að öðru leyti. Þá liggja ekki fyrir í málinu þær aðstæður sem komið geta í veg fyrir að leyfi til að áfrýjunar beint til Hæstaréttar verði veitt á grundvelli 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991. Beiðni leyfisbeiðenda um leyfi til áfrýjunar héraðsdóms beint til Hæstaréttar er því samþykkt.