Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-72

B ehf. (Jón Jónsson lögmaður)
gegn
A (Helgi Birgisson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Ráðningarsamningur
  • Riftun
  • Skaðabætur
  • Miskabætur
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Skúli Magnússon.

2. Með beiðni 14. apríl 2025 leita B ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 20. mars sama ár í máli nr. 615/2023: A gegn B ehf. og gagnsök. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Gagnaðili var ráðinn til starfa hjá leyfisbeiðanda sem framkvæmdastjóri með samningi í mars 2018. Honum var sagt upp störfum með skriflegri tilkynningu 19. ágúst 2019 miðað við næstu mánaðamót. Að teknu tilliti til sex mánaða uppsagnarfrests stóð til að slit ráðningarsamningsins tækju mið af mánaðamótum febrúar og mars 2020. Leyfisbeiðandi rifti hins vegar ráðningarsamningnum með bréfi 28. október 2019. Gagnaðili höfðaði mál á hendur leyfisbeiðanda og krafðist skaðabóta sem tóku mið af fjárhæð launa hans út uppsagnarfrest, bóta vegna ólögmætrar riftunar í tólf mánuði og miskabóta. Með gagnstefnu krafði leyfisbeiðanda gagnaðila um bætur fyrir tjón sem hann varð fyrir vegna gjaldskrármálefna, tjóns af heimildarlausra kaupum gagnaðila á líftryggingu fyrir sig sem og óheimils útlagðs fæðiskostnaðar.

4. Héraðsdómur féllst á lögmæti riftunar á ráðningarsamningnum. Í dómi Landsréttar var rakið að stjórn leyfisbeiðanda hafi verið heimilt samkvæmt ráðningarsamningi við gagnaðila að segja honum upp störfum með sex mánaða fyrirvara. Féllst Landsréttur ekki á að þær ávirðingar sem leyfisbeiðandi hefði vísað til um grundvöll riftunar hefðu verið þess eðlis að heimilt hafi verið að víkja gagnaðila fyrirvaralaust úr starfi. Samkvæmt því var fallist á að gagnaðili ætti rétt á greiðslu bóta sem næmi fjárhæð þeirra launa sem hann hefði notið það sem eftir stóð af uppsagnarfresti ráðningarsamningsins auk ógreidds orlofs. Var leyfisbeiðandi hins vegar sýknaður af kröfu um greiðslu frekari bóta enda hefði gagnaðili ekki sýnt fram á að hann hefði orðið fyrir tjóni. Þá var gagnaðili talinn eiga rétt á 800.000 króna miskabótum. Loks var gagnaðili sýknaður af öllum kröfum leyfisbeiðanda í gagnsök. Var leyfisbeiðanda því gert að greiða gagnaðila alls 10.049.003 krónur auk vaxta.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur í málinu hafi verulegt almennt gildi og sé fordæmisgefandi um stöðu framkvæmdastjóra einkahlutafélags og hvernig fjallað er um starfsskyldur hans við mat á forsendum riftunar ráðningarsamnings. Í dómi Landsréttar sé hvergi vikið að þeim starfsskyldum sem fylgdu starfi gagnaðila og ástæður riftunar einungis metnar sem vanræksla. Einnig byggir leyfisbeiðandi á því að málið hafi fordæmisgildi um endurkröfurétt vinnuveitanda vegna greiðslna til framkvæmdastjóra sem stjórn hefur ekki samþykkt. Þá telur leyfisbeiðandi að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur um beitingu meginreglna um heimild til fyrirvaralausar uppsagnar, endurgreiðslu, uppgjör launa auk þess sem þar sé fallist á að gagnaðili fái greitt orlof umfram réttindi sem hann gat átt. Þar fyrir utan dregur leyfisbeiðandi í efa að gagnaðili hafi aldrei á eins og hálfs árs starfstíma tekið orlofsdag en engar skráningar lágu fyrir um orlofstöku gagnaðila og sinnti hann ekki áskorunum um að upplýsa um hana.

6. Að virtum gögnum málsins verður að telja að dómur í því kunni að hafa verulegt almennt gildi, meðal annars um skilyrði riftunar ráðningarsamnings og greiðslu skaða- og miskabóta í því tilliti. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.