Hæstiréttur íslands
Nr. 2020-19
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Skaðabætur
- Tjón
- Sönnun
- Matsgerð
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Með beiðni 9. janúar 2020 leitar Stefa ehf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 13. desember 2019 í málinu nr. 234/2019: Sportver ehf. gegn Stefu ehf., á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sportver ehf. leggst gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um greiðslu skaðabóta úr hendi gagnaðila vegna tjóns sem leyfisbeiðandi kveðst hafa orðið fyrir þegar ryk barst inn í verslun hans við framkvæmdir á vegum gagnaðila í mars 2015 og eyðilagði vörur sem þar voru til sölu. Leyfisbeiðandi krafðist annars vegar 14.358.508 króna vegna innkaupsverðs þeirra vara sem urðu óseljanlegar og hins vegar 14.850.000 króna vegna þeirrar framlegðar sem orðið hefði af sölu sama hluta lagersins. Til stuðnings kröfu sinni byggði leyfisbeiðandi á yfirmatsgerð dómkvaddra manna. Í héraðsdómi var fallist á kröfur leyfisbeiðanda. Landsréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um skaðabótaskyldu gagnaðila en tók ekki til greina seinni kröfuliðinn að fullu með vísan til þess að tjónið yrði þá ofbætt. Taldi rétturinn að leyfisbeiðandi hefði á engan hátt gert líklegt að allar vörurnar sem ónýttust, eða rúmlega 60% lagersins, hefðu getað selst á því tímabili sem lokun verslunarinnar stóð yfir. Hins vegar þótti leyfisbeiðandi hafa sýnt nægilega fram á að hann hefði orðið af hagnaði og voru bætur vegna hagnaðarmissis dæmdar að álitum.
Leyfisbeiðandi byggir á að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi og að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Í þeim efnum vísar hann til þess að Landsréttur hafi ranglega talið að bætur samkvæmt seinni kröfuliðnum skyldu miðast við áætlaðan hagnað tilgreinda daga af starfsemi hans. Rétt hefði verið að miða bætur við tapaða framlegð af hinum ónýtu vörum. Leyfisbeiðandi telur að engin skýr dómafordæmi liggi fyrir um ágreining af þessu tagi. Þá hafi Landsréttur byggt á málsástæðu sem gagnaðili hafi ekki teflt fram, auk þess sem dráttarvextir hafi verið ranglega dæmdir á báðum dómstigum. Leyfisbeiðandi vísar jafnframt til þess að fjárhæð dæmds málskostnaðar í héraði og Landsrétti hafi verið of lág og hann því orðið fyrir viðbótartjóni sökum þess. Loks varði málið sérstaklega mikilvæga fjárhagslega hagsmuni sína.
Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að úrslit þess geti haft fordæmisgildi um atriði sem leyfisbeiðnin er reist á. Er umsókn leyfisbeiðanda um áfrýjunarleyfi því tekin til greina.