Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-56

Kristján Erlendsson (Daníel Isebarn Ágústsson lögmaður)
gegn
Íslenska ríkinu (Soffía Jónsdóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Viðurkenningarkrafa
  • Starfsumsókn
  • Skaðabætur
  • Miskabætur
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 12. apríl 2024 leitar Kristján Erlendsson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 15. mars sama ár í máli nr. 618/2022: Kristján Erlendsson gegn Íslenska ríkinu. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Ágreiningur málsins lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um viðurkenningu á rétti hans til skaða- og miskabóta vegna ákvörðunar Landspítalans um að hafna umsókn hans um starf forstöðumanns lyflækninga- og endurhæfingarþjónustu á þeim grundvelli að hann væri orðinn 70 ára gamall.

4. Landsréttur staðfesti héraðsdóm um sýknu gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda. Í dómi Landsréttar var ekki talið sannað að hin umdeilda ákvörðun hefði valdið honum tjóni. Var það þó ekki talið varða frávísun á kröfu um viðurkenningu á skaðabótaskyldu heldur var gagnaðili sýknaður af henni. Hvað kröfu um miskabætur varðaði kom fram í dómi Landsréttar að vísað hefði verið til þess til stuðnings ákvörðun Landsspítalans að ekki teldist löglegt fyrir ríkisstofnun að ráða í fast starf einstakling sem væri eldri en 70 ára. Talið var ljóst af gögnum málsins að til grundvallar ákvörðuninni hefði legið fortakslaust ákvæði 2. mgr. 43. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins um að jafnan skyldi segja starfsmanni upp störfum frá og með næstu mánaðamótum eftir að hann næði 70 ára aldri. Ekkert hefði komið fram um að persóna leyfisbeiðanda hefði eitthvað haft með ákvörðunina að gera. Að þessu virtu þótti saknæmisskilyrði b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 ekki uppfyllt og gagnaðili sýknaður af kröfu leyfisbeiðanda um miskabætur.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að málið hafi verulegt almennt gildi fyrir alla sem eru um sjötugt eða nálgast þann aldur og hafa hug á að sækja um starf sem fellur undir lög nr. 70/1996. Málið hafi fordæmisgildi um lagareglur og sjónarmið sem eigi við um allar aldurstengdar starfslokareglur. Það hafi einnig bein áhrif á framkvæmd allra stjórnvalda og stofnana sem falli undir lög nr. 70/1996. Þá varði ágreiningur málsins atvinnuréttindi sem séu stjórnarskrárvarin og því í eðli sínu mikilvæg og varði leyfisbeiðanda miklu. Að lokum telur hann að dómur Landsréttar sé rangur. Niðurstaðan byggi á því að leyfisbeiðandi hafi ekki sannað tjón sitt þar sem hann hafi ekki sýnt fram á að hann hefði verið ráðinn ef hann hefði fengið að taka þátt í umsóknarferlinu. Dómurinn vísi til þess að leyfisbeiðandi hafi ekki lagt fram nein gögn um að hann hefði verið talinn hæfastur. Telur leyfisbeiðandi þessa nálgun í andstöðu við meginreglu réttarfars og dómafordæmi. Um það vísar hann til dóma Hæstaréttar 11. febrúar 2021 í máli nr. 22/2020 og 4. maí 2022 í máli nr. 50/2021.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.