Hæstiréttur íslands
Nr. 2019-205
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Fjárslit milli hjóna
- Opinber skipti
- Lífeyrisréttindi
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Með beiðni 7. júní 2019 leitar K leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 15. maí sama ár í málinu nr. 240/2019: K gegn M, á grundvelli 2. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. M leggst gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur að ágreiningi í tengslum við opinber skipti til fjárslita milli leyfisbeiðanda og gagnaðila vegna hjónaskilnaðar. Sá ágreiningur snýr aðallega að kröfum leyfisbeiðanda um útlagningu tiltekinnar jarðar og að taka verði við skiptin tillit til alls kostnaðar við rekstur búskapar á henni. Þá krefst leyfisbeiðandi þess að lífeyrisréttindi gagnaðila í séreignarsjóði og tiltekin yfirdráttarskuld hennar á bankareikningi komi undir skiptin. Héraðsdómur vísaði kröfu leyfisbeiðanda um útlagningu jarðarinnar frá dómi þar sem skilyrðum 1. mgr. 110. gr. laga nr. 20/1991 hafi ekki verið fullnægt. Eins var kröfu hennar í tengslum við kostnað af búrekstri vísað frá dómi vegna vanreifunar. Þá var hafnað kröfum leyfisbeiðanda um að lífeyrissréttindi gagnaðila í séreignarsjóði og yfirdráttarskuld hennar féllu undir skiptin. Var meðal annars vísað til þess að réttindi yfir séreignarlífeyrissparnaði teldust ekki hafa endurkaupsvirði í skilningi 2. töluliðar 1. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 og að skuld leyfisbeiðanda hafi ekki verið studd viðhlítandi gögnum. Með fyrrnefndum úrskurði Landsréttar var niðurstaða héraðsdóms staðfest.
Leyfisbeiðandi byggir á því að kæruefnið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni hennar enda sé um að ræða skipti á öllum eignum aðila og þá ekki síst heimili leyfisbeiðanda þar sem hún hafi búsetu og hafi átt frá samvistaslitum þeirra. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að kæruefnið hafi fordæmisgildi og hafi héraðsdómur og Landsréttur vikið að verulegu leyti frá meginreglum um skipti við fjárslit milli hjóna vegna skilnaðar.
Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að kæruefnið hafi fordæmisgildi svo einhverju nemi umfram dómsúrlausnir sem áður hafa gengið þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 2. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Er beiðni um kæruleyfi því hafnað.