Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-46

Vátryggingafélag Íslands hf. (Heiðar Örn Stefánsson lögmaður)
gegn
A (Ólafur Örn Svansson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Skaðabótamál
  • Viðurkenningarkrafa
  • Líkamstjón
  • Ábyrgðartrygging
  • Saknæmi
  • Börn
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 28. mars 2024 leitar Vátryggingafélag Íslands hf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 1. sama mánaðar í máli nr. 786/2022: Vátryggingafélag Íslands hf. gegn A. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Ágreiningur í málinu varðar kröfu gagnaðila um viðurkenningu á bótaskyldu úr frjálsri ábyrgðartryggingu B hjá leyfisbeiðanda vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir í eðlisfræðistofu í grunnskóla þegar samnemandi hennar skvetti etanóli úr brúsa, sem kennari þeirra hafði skilið eftir á kennaraborði yfir efnafræðitilraun sem kennarinn hafði útbúið. Gagnaðili reisir kröfu sína á meginreglu skaðabótaréttar um sök og vinnuveitandaábyrgð enda hafi slysið orsakast af gáleysislegri háttsemi eða athafnaleysi sem B beri ábyrgð á.

4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms þar sem viðurkennd var bótaskylda úr ábyrgðartryggingu hjá leyfisbeiðanda. Í dómi Landsréttar var litið til þess að kappkosta bæri að gæta ýtrasta öryggis í grunnskólum til verndar nemendum gegn slysum. Landsréttur vísaði til þess að þrátt fyrir að kennarinn hefði lagt bann við því að nemendur handléku etanólið skorti af hans hálfu leiðbeiningar um hættuna af efninu. Þá hefði kennarinn snúið baki við nemendahóp þegar samnemandinn greip etanólflöskuna en af því aðgæslu- og eftirlitsleysi leiddi að ekkert ráðrúm hefði gefist fyrir hann til að grípa inn í atburðarásina og forða slysi. Loks var litið til þess að áhættumat sem gera hefði átt í samræmi við lög nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerð á grundvelli laganna hafði ekki verið framkvæmt. Það, ásamt verklagsreglum um meðferð hættumerktra efna í eðlis- og efnafræðistofum, hefði getað leitt til þess að etanólið í tilrauninni hefði verið meðhöndlað á annan veg en gert var og slysi þannig afstýrt.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur og telur verulegar líkur á að niðurstaða Hæstaréttar yrði önnur. Niðurstaða Landsréttar byggi ekki á þeim sjónarmiðum sem almennt sé viðurkennt að líta skuli til við mat á gáleysi kennara eða annarra aðila sem hafi umsjón með börnum. Það eigi einkum við þegar ekki liggi fyrir að brotið hafi verið gegn ákvæði í lögum, reglugerðum eða reglum sem kveði á um tiltekna háttsemi. Einnig byggi Landsréttur á málsástæðu sem aldrei hafi verið höfð uppi í málinu. Leyfisbeiðandi byggir einnig á því að dómur í málinu hefði verulegt almennt gildi en auk þess sé dómur Landsréttar til þess fallinn að grafa undan boðvaldi kennara við kennslu 14 og 15 ára ungmenna. Þá hefur niðurstaða Landsréttar verulega þýðingu fyrir skipulag og framkvæmd allrar kennslu sem hefur einhverja hættu í för með sér, líkt og smíði, efnafræði, eðlisfræði, íþróttir og heimilisfræði. Fái hún að standa óhreyfð bæri að gera sérstakt áhættumat fyrir hverja og eina efnafræðitilraun í hvert og eitt skipti í hverjum og einum grunnskóla landsins.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.