Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-59
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Afnotaréttur
- Sönnunarbyrði
- Hefð
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.
2. Með beiðni 21. apríl 2023 leita Ágúst Karlsson og Sæþór Benjamín Randalsson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 31. mars 2023 í máli nr. 118/2022: Ágúst Karlsson og Sæþór Benjamín Randalsson gegn Kópavogsbæ. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Deila aðila lýtur að afmörkun lóðar sem fylgdi íbúðarhúsi sem leyfisbeiðendur festu kaup á árið 2018 í Kópavogi og þeir hafa afnotarétt yfir samkvæmt samningi þáverandi eiganda við gagnaðila 23. maí 1969.
4. Með dómi Landsréttar var niðurstaða héraðsdóms staðfest um að sýkna gagnaðila af kröfum leyfisbeiðenda. Í dómi Landsréttar kom fram að ekki væri ágreiningur um stærð eða lögun lóðarinnar sunnan megin við íbúðarhúsið en af gögnum málsins yrði ekki ótvírætt ráðið hvar lóðarmörk lægju norðan megin við húsið. Leyfisbeiðendur byggðu á því að lóðin næði til alls opins svæðis þar og afmarkaðist af göngustíg að vestan og norðan og akvegi að austan. Gagnaðili taldi lóðarmörkin liggja rétt framan við íbúðarhúsið að norðan. Í samningnum 23. maí 1969 kom fram að lóðin skyldi afmarkast af væntanlegu vegstæði að vestan. Í dómi Landsréttar var fjallað um legu vegarins samkvæmt loftmynd frá 1974 og greint frá því að kominn hefði verið göngustígur í stað vegarins samkvæmt loftmynd frá 1981. Þá var litið til þess að nú væri lega göngustígsins önnur og opna svæðið norðan við íbúðarhúsið minna en sjá mætti á loftmyndinni frá 1981. Engin gögn lægju fyrir um að leitað hefði verið samþykkis þáverandi eiganda íbúðarhússins fyrir því að breyta legu göngustígsins og minnka þar með svæðið norðan hússins. Af samningnum 23. maí 1969 yrði dregin sú ályktun að ekki hefði allur gróður fallið innan marka lóðarinnar en sjá mætti á loftmyndum frá árunum 1970 og 1973 að nær allur gróður á svæðinu væri innan þess svæðis sem leyfisbeiðendur teldu til lóðarinnar. Jafnframt hefði svæðið norðan hússins ekki verið sléttað og ræktað með sama hætti og gert hefði verið sunnan megin og að gagnaðili hefði séð um slátt og hirðingu á norðursvæðinu allt þar til leyfisbeiðendur festu kaup á íbúðarhúsinu. Var því ekki fallist á með leyfisbeiðendum að líklegt væri að lóðarmörkin hefðu náð jafn langt norður og austur og þeir teldu en fyrir því bæru þeir sönnunarbyrði. Landsréttur féllst ekki á að leyfisbeiðendur hefðu eignast svæðið fyrir hefð þar sem í ljósi ákvæða samningsins 23. maí 1969 mættu eigendur íbúðarhússins hverju sinni ekki vænta annars en að umráðin væru tímabundin. Væri sú aðstaða því fyrir hendi að 3. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð stæði því í vegi að leigutaki gæti unnið hefð að svæðinu með réttu.
5. Leyfisbeiðendur byggja á því að málið hafi verulegt fordæmisgildi um sönnunarkröfur sem gerðar eru í málum sem einstaklingar höfða gegn opinberum aðilum, einkum þegar fyrir liggur að hinn opinberi aðili hafði tök á því að tryggja betri sönnun við samningsgerð. Þá reyni á mörk sönnunar og vanreifunar. Sönnunarkröfur til leyfisbeiðenda hafi verið allt of íþyngjandi að teknu tilliti til stöðu þeirra gagnvart opinberum aðila. Leyfisbeiðendur telja að Landsrétti hafi í ljósi eðlis málsins borið að vísa því frá héraðsdómi vegna skorts á sönnun en ekki sýkna gagnaðila. Leyfisbeiðendur byggja jafnframt á því að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni þeirra. Þá hafi niðurstaða Landsréttar hvað varðar hefð verið bersýnilega röng að efni til um að samningurinn 23. maí 1969 hafi ekki gefið tilefni til að ætla annað en að umráð væru tímabundin, en samkvæmt efni samningsins hafi þáverandi og síðari eigendur mátt ganga út frá því að húsið fengi að standa.
6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.