Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-140

A (Guðbrandur Jóhannesson lögmaður)
gegn
B (Geir Gestsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Óvígð sambúð
  • Fjárslit
  • Opinber skipti
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 15. september 2025 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að kæra úrskurð Landsréttar 2. sama mánaðar í máli nr. 548/2025: A gegn B. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Málið varðar kröfu leyfisbeiðanda um að við fjárslit hans og gagnaðila við lok óvígðrar sambúðar verði viðurkennd 15,69% eignarhlutdeild hans í fasteign að […] í Reykjavík en til vara að honum verði dæmd önnur og lægri eignarhlutdeild í fasteigninni að mati dómsins. Til vara krefst leyfisbeiðandi þess að viðurkennt verði að hann eigi endurkröfurétt á hendur gagnaðila vegna útlagðra fjárframlaga, samtals að fjárhæð 6.206.678 krónur. Jafnframt krefst hann þess að öllum kröfum gagnaðila í málinu verði hafnað, þar á meðal kröfu um að hún verði skráð ein eigandi tiltekins hjólhýsis.

4. Með úrskurði héraðsdóms var öllum kröfum leyfisbeiðanda hafnað en fallist á kröfur gagnaðila. Í úrskurði Landsréttar kom fram að þegar litið væri heildstætt á atvik máls, hvernig fjármálum aðila hefði verið háttað á sambúðartíma þeirra, fyrirkomulag á skráningu eigna, hversu skamman tíma sambúðin stóð og aðstæður að öðru leyti yrði ekki talið að tilgreindar greiðslur sem leyfisbeiðandi innti af hendi hefðu leitt til eignarhlutdeildar hans í íbúð gagnaðila. Telja yrði að stærstur hluti þeirra hefði ekki falið í sér annað en eðlileg framlög til heimilisrekstrar. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Landsréttur hafi ranglega talið að stærstur hluti mánaðarlegra millifærslna frá honum til gagnaðila hafi ekki falið í sér annað en eðlileg framlög til heimilisrekstrar. Ekki hafi verið tekið tillit til 1.500.000 króna afsalsgreiðslu sem leyfisbeiðandi hafi lagt fram og ekki heldur ráðstöfunar hans á 854.373 króna séreignasparnaði inn á sameiginlegt lán vegna fasteignarinnar sem gagnaðili hafi ein verið skráð fyrir. Slík ráðstöfun á séreignarsparnaði sé bundin við greiðslu á höfuðstól lána sem tekin séu til öflunar á íbúðarhúsnæði til eigin nota. Heildarmillifærslur af bankareikningi leyfisbeiðanda til gagnaðila hafi verið 8.297.500 krónur. Þá hafi hann að auki staðið straum af ýmsum öðrum útgjöldum vegna heimilisins. Að lokum byggir leyfisbeiðandi á því að málið varði mikilsverða hagsmuni hans og úrslit þess fordæmisgefandi um fjárslit við lok óvígðrar sambúðar.

6. Að virtum gögnum málsins verður talið að úrlausn um kæruefnið geti haft fordæmisgildi um fjárslit við lok óvígðrar sambúðar. Beiðni um kæruleyfi er því samþykkt.