Hæstiréttur íslands

Nr. 2020-240

Reykjavíkurborg (Ebba Schram lögmaður) og Vegagerðin (Reynir Karlsson lögmaður)
gegn
Loftorku Reykjavík ehf. (Jóhannes Karl Sveinsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Verksamningur
  • Tómlæti
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

Með beiðnum 21. og 22. október 2020 leita Reykjavíkurborg og Vegagerðin eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 25. september sama ár í málinu nr. 406/2019: Loftorka Reykjavík ehf. gegn Reykjavíkurborg og Vegagerðinni og gagnsök, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að uppgjöri verksamnings milli leyfisbeiðenda og gagnaðila um verkið  „Breiðholtsbraut við Norðlingaholt. Göngubrú og stígar.“ Sakarefni málsins var skipt í héraði með þeim hætti að aðeins var leyst úr því hvort kröfur gagnaðila um greiðslu 6.000.000 króna eftirstöðva verklauna og greiðslu 6.407.121 krónu viðbótarkostnaðar væru fallnar niður á þeim grundvelli að lokauppgjör hefði verið samþykkt eða að gagnaðili hefði sýnt af sér tómlæti. Jafnframt var úr því leyst hvort gagnkrafa leyfisbeiðenda um tafabætur væri fallin niður vegna þess að þeir hefðu ekki gert fyrirvara um kröfu vegna tafabóta er þeir gengu frá greiðslum 27. nóvember 2015 og vegna tómlætis. Önnur atriði málsins bíða úrlausnar héraðsdóms. Í þessum þætti málsins hafa aðilar meðal annars deilt um hvort kröfur gagnaðila um greiðslu eftirstöðva verklauna sé fallnar niður á grundvelli reglna kröfuréttar um fullnaðarkvittanir og viðbótarkröfur eða vegna  tómlætis. Með dómi héraðsdóms var fallist á að heimild gagnaðila til að hafa uppi kröfu á hendur leyfisbeiðendum um full verklaun væri hvorki fallin niður á þeim grundvelli að lokauppgjör hefði farið fram né að hann hefði glatað rétti sínum til að hafa uppi kröfuna vegna tómlætis og staðfesti Landsréttur þá niðurstöðu. Í dómi Landsréttar var skírskotað til þess að þrátt fyrir að skilagrein með lokareikningi 2. desember 2015 kvæði á um afslátt af verklaunum hefðu leyfisbeiðendur verið grandsamir um að gagnaðili gerði fyrirvara um réttmæti afsláttarkröfunnar. Af þeim sökum hefðu leyfisbeiðendur ekki getað verið í góðri trú um að gagnaðili hefði fallist á afsláttarkröfuna við útgáfu reikningsins og móttöku greiðslu. Gætu leyfisbeiðendur því ekki byggt á því að reglur kröfuréttar um réttaráhrif fullnaðarkvittana eða viðbótarkröfur leiddu til þess að krafa gagnaðila samkvæmt verksamningnum hefði fallið niður. Af sömu ástæðu gætu ákvæði greina 5.1.9 og 5.1.10 í staðlinum ÍST 30 ekki leitt til annarrar niðurstöðu. Leyfisbeiðendur leita eftir því að fá framangreindri niðurstöðu Landsréttar hnekkt.

Leyfisbeiðendur byggja á því að úrlausn málsins hafi fordæmisgildi og varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína. Vísa þeir meðal annars til þess að mikilvægt sé að fá úrlausn Hæstaréttar um áhrif greina 5.1.9 og 5.1.10 í ÍST 30 á kröfur verktaka eftir útgáfu lokareikninga, hvaða kröfur verði að gera til fyrirvara af hálfu verktaka við lokareikning og áhrif dráttar verktaka á að setja fram kröfur sínar. Þá telja leyfisbeiðendur að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur og setji í uppnám þá festu sem staðlinum sé ætlað að skapa.

Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi umfram dómsúrlausnir sem þegar hafa gengið né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðenda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.